Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 07. febrúar 2020 15:17
Magnús Már Einarsson
Tillögur á ársþingi - Leyfiskerfi kvenna og fjölgun varamanna í yngri flokkum
Lagt er til að taka upp leyfiskerfi í Pepsi Max-deild kvenna.
Lagt er til að taka upp leyfiskerfi í Pepsi Max-deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lagt er til að fjölga varamönnum í 2-4 .flokki.
Lagt er til að fjölga varamönnum í 2-4 .flokki.
Mynd: Raggi Óla
ÍA leggur til að KSÍ manni dómaratríó í 2. flokki karla og kvenna.  Myndin er úr leik hjá 2. flokki ÍA gegn Derby.
ÍA leggur til að KSÍ manni dómaratríó í 2. flokki karla og kvenna. Myndin er úr leik hjá 2. flokki ÍA gegn Derby.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍR vill að lið í 1 og 2. deild kvenna geti gert leikmannasamninga.
ÍR vill að lið í 1 og 2. deild kvenna geti gert leikmannasamninga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ hefur birt þær tillögur sem teknar verða fyrir á ársþingi sambandsins í Ólafsvík þann 22. febrúar næstkomandi.

Stærsta tillagan er tillaga ÍA um fjölgun liða í Pepsi Max-deildinni en athugasemdir hafa verið gerðar við þá tillögu frá KSÍ.

Hér að neðan má sjá lista yfir aðrar tillögur á þinginu í ár.



Tillaga til lagabreytinga
Á ársþingi KSÍ 2019 voru samþykktar heildarbreytingar á lögum KSÍ. Voru lögin samþykkt með þeim fyrirvara að þau myndu öðlast gildi að lokinni staðfestingu framkvæmdastjórnar ÍSÍ í samræmi við 46. grein laganna. Eftir yfirferð sína gerði Framkvæmdastjórn ÍSÍ athugasemdir við nýsamþykkt lög en staðfesti þau engu að síður með þeim fyrirvara að á knattspyrnuþingi árið 2020 yrðu lagðar til breytingar til úrbóta. Því er lögð fram tillaga um lagabreytingu í ár. Þar er meðal annars búið að breyta 6. grein en þar stendur nú: „Aðildarfélag skuldbindur sig til að vinna gegn ólöglegri veðmálastarfsemi og hagræðingu úrslita leikja. Aðilum sem falla undir lög þessi og taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ er óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Bann þetta tekur einnig til miðlunar upplýsinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál og fela í sér fjárhagslegan ávinning."
Tillagan í heild sinni

Ágreiningsmál og staðalsamningur þjálfara
Eftir viðræður KSÍ og Knattspyrnuþjálfarafélagsins er stjórn KSÍ með tillögu um að innleiða staðalsamning KSÍ fyrir þjálfara og gera um leið nauðsynlegar breytingar í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. „Nánar tiltekið hefur það verið skoðun stjórnar KÞÍ um nokkurt skeið að úrbóta sé þörf á stöðu þjálfara. Eitt þeirra atriða lýtur að núverandi fyrirkomulagi í ágreiningsmálum milli þjálfara og félaga/knattspyrnudeilda. Það er, að skjóta þurfi slíkum ágreiningsmálum til dómstóla þar sem ekki eru til staðar úrræði innan knattspyrnuhreyfingarinnar að leysa úr slíkum málum. Það er skoðun stjórnar KÞÍ að knattspyrnuþjálfarar standi að þessu leyti höllum fæti gagnvart mörgum öðrum starfsstéttum sem t.d. hafa ýmis úrræði að leitaréttar síns á grundvelli kjarasamninga," segir meðal annars í greinargerð.
Tillagan í heild sinni

Leyfiskerfi í Pepsi Max-deild kvenna
Frá upphafi árs 2018 hefur verið unnið að undirbúningi á leyfiskerfi í Pepsi Max-deild kvenna og stjórn KSÍ leggur nú fram tillögu um að það verði tekið upp. „Leyfiskerfið hefur gefið góða reynslu í efstu deildum karla hér á landi og hefur það bætt til muna faglega umgjörð íþróttinnar. Af þeim ástæðum samþykkti stjórn KSÍ á fundi sínum þann 12. desember sl. að leggja það til samþykktar á ársþingi sambandsins árið 2020 að sett verði á laggirnar leyfiskerfi í efstu deild kvenna sem tekur mið af leyfiskerfi UEFA fyrir þátttöku í meistaradeild kvenna. Þar með verði tekið mikilvægt skref fyrir frekari þróun kvennaknattspyrnunnar hér á landi. Verði tillaga þessi samþykkt mun stjórn KSÍ innleiða leyfiskerfi fyrir félög í efstu deild kvenna árið 2021 sem tekur mið af leyfiskerfi UEFA sem gildir fyrir þátttöku í meistararadeild kvenna," segir meðal annars í greinargerð.
Tillagan í heild sinni

Fjölgun varamanna í yngri flokkum
ÍA leggur til að varamönnum verði fjölgað í 2, 3 og 4. flokki úr 5 upp í 7 og skiptingarnar verði eins og í Lengjubikarnum, þannig að einungis sé heimilt að gera fjórar skiptingar í síðari hálfleik en frjálsar skiptingar séu í hálfleik og fyrri hálfleik. „Þessi tilhögun kemur til með að gefa þjálfurum tækifæri til að gefa öllum leikmönnum verkefni og verður til þess að ólíklegara sé að það þurfi að skilja leikmenn eftir heima. Oft er það þannig að þjálfarar taka þá áhvörðun að hafa ekki markmann á bekknum því ólíklegt er að honum sé skipt inná, sem myndi breytast með þessu. Lið sem t.d. hafa 36 iðkendur geta ekki verið með fleiri en tvö lið og það er ekki möguleiki að gefa öllum tækifæri að taka þátt. Með þessari breytingu verður það hægt," segir í greinargerð.
Mótanefnd KSÍ kemur með athugasemd við tillöguna. „Nefndin gerir ekki athugasemd við tillöguna að öðru leyti en því að hér er verið að gera meiriháttar breytingu á innáskiptingum í 4. flokki karla og kvenna. Í dag eru frjálsar skiptingar í 4. aldursflokki. Með þessari tillögu er verið að leggja bann við frjálsum skiptingum í 4. flokki," segir í athugasemd mótanefndar.
Tillagan í heild sinni

Dómaratríó í 2. flokki
ÍA leggur til að KSÍ útvegi dómartríó á leikjum í 2. flokki karla og kvenna en ekki bara dómara eins og í dag. „Lagt er til að KSÍ leggi fram dómaratrío á leiki í Íslandsmóti í 2. aldursflokki. Mikilvægt er hafa dómaratrío sem er hlutlaust, svo iðkendur/leikmenn þekki ekki dómarana. Meira er farið að vera í húfi í keppni hjá 2. aldursflokki, en félög er farin að berjast um að vinna sér þátttökurétt í Evrópukeppni. Keppnin er orðin stærri sýningargluggi og vel er fylgst með ungum leikmönnum í dag," segir í greinargerð ÍA.
Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar, skrifar langa athugasemd við tillöguna og bendir á aukin kostnað upp á fimmtán milljónir sem myndi lenda á félögunum. Hann segir tillöguna einnig slæma upp á nýliðun dómara að gera. „Í flestum aðildarlöndum UEFA sér hvert knattspyrnusamband um mönnun dómara í tveimur til þremur efstu deildum karla og kvenna. Dómarafélög sjá um að manna aðra leiki. Dómarafélögin fjármagna sig með því að rukka félögin fyrir leiki sem þau koma að. Knattspyrnusamböndin sjá síðan um fræðslu í dómarafélögunum og ýmsan annan stuðning. Það er spurning hvort við hér á Íslandi eigum að fara taka upp sambærilegt fyrirkomulag þar sem umfangið hjá KSÍ við mönnun dómara eykst á hverju ári og spurning hvort það sé tímabært að fleiri aðilar komi að mönnun leikja," segir Þóroddur meðal annars.
Tillagan í heild sinni

Leikmannasamningar í 1 og 2. deild kvenna
ÍR vill að félög í 1 og 2. deild kvenna geti gert leikmannasamninga líkt og félög í Pepsi Max-deildinni. „Núverandi fyrirkomulag gerir einungis 10 liðum á ári kleift að gera leikmannasamninga en þeir eru forsendur þess að leikmenn geti gert tímabundin félagaskipti enda sambandssamningur metinn sem áhugamannasamningur hjá FIFA. Grundvallarmunur er á tímabundnum félagaskiptum og almennum félagaskiptum og hefur það þýtt að mjög er þrengt að félagaskiptum kvennaliða enda stórt skref að yfirgefa samningsfélag vegna mögulegra skammtímahagsmuna er snúa að því að fá mínútur í keppnisleikjum í meistaraflokki. Með því að tryggja jafnrétti þriggja efstu deilda karla og kvenna þegar kemur að gerð samninga munu fleiri leikmenn fá mínútur í meistaraflokki sem er öllum til hagsbóta," segir í greinargerð.
Tillagan í heild sinni

Endurgreiðslur skatta og gjalda til félagasamtaka
Stjórn KSÍ kemur með tillögu sem snýr að endurgreiðslu skatta og gjalda til félagasamtaka. „74. ársþing KSÍ, haldið þann 22. febrúar í Ólafsvík, samþykkir að beina þeirri eindregnu áskorun til Alþingis og fjármálaráðherra að samþykkja sem fyrst tillögur sem lagðar hafa verið fram um endurgreiðslur skatta og gjalda til félagasamtaka sem starfa að almannaheillaverkefnum. Einnig er þar að finna tillögur um möguleg úrræði í skattakerfinu til þess að gera bæði fyrirtækjum og einstaklingum frekar kleift að styðja við íþróttahreyfinguna með framlögum. Fyrir íþróttahreyfinguna er hvað mikilvægast í þessu efni að til komi endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna íþróttamannvirkja. Mál þetta hefur verið í vinnslu um allnokkra hríð án þess að fá afgreiðslu. Nefnd sem skipuð var á síðasta ári hefur skilað áliti sínu og því ætti ekkert að vera að vanbúnaði að hrinda málinu í framkvæmd. Endurgreiðsla virðisaukaskatts til almannaheillafélaga mun án vafa hraða nauðsynlegri uppbyggingu mannvirkja, sem skila fljótt og örugglega ríkulegum arði til samfélagsins í því almannaheillastarfi sem sjálfboðaliðar þessara félaga bera uppi," segir í greinargerð.
Tillagan í heild sinni
Athugasemdir
banner
banner
banner