Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 07. júní 2021 22:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Velti fyrir mér hvort hann hafi aldrei horft á Kaj Leo spila fótbolta"
Kaj Leo í Bartalsstovu.
Kaj Leo í Bartalsstovu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Færeyski landsliðsmaðurinn Kaj Leo í Bartalsstovu kom Valsmönnum yfir með glæsilegu marki þegar Íslandsmeistararnir gerðu jafntefli við Víking í Pepsi Max-deildinni í kvöld.

„Kiddi Freyr kemur boltanum út á Kaj Leo sem köttar inn á vinstri fótinn sinn og lætur vaða og boltinn syngur í fjærhorninu. Óverjandi fyrir Þórð Ingason," skrifaði Anton Freyr Jónsson í beinni textalýsingu sem má skoða hérna.

Það var rætt um markið í Pepsi Max Stúkunni á Stöð 2 Sport í kvöld en þar varnarleikur Atla Barkarsonar, vinstri bakvarðar Víkings, gagnrýndur.

„Halldór Smári er að gera það hárrétta í þessu, hann vill beina honum niður. Að Kaj Leo verði á hægri fætinum. Atli hins vegar, mér finnst hann ekki alveg vera með," sagði Guðmundur Benediktsson.

„Ég velti fyrir mér hvort hann hafi hreinlega aldrei horft á Kaj Leo spila fótbolta. Þetta er þriðja árið hans í Val og hann gerir þetta alltaf, hann leitar alltaf inn á vinstri fótinn og gerir þetta," sagði Atli Viðar Björnsson.

„Hvernig hann hjálpar Halldóri Smára ekki, það finnst mér mjög dapurt. Ég ætla ekki að taka neitt af Kaj Leo... en þetta er mark sem á mjög auðveldlega að vera hægt að koma í veg fyrir."

„Hann á að vita þetta. Þetta er hans vörumerki," sagði Ólafur Jóhannesson, fyrrum þjálfari Vals, og var þar að tala um að Kaj Leo færi alltaf yfir á vinstri fótinn.

Þetta mark dugði ekki til sigurs fyrir Val því Nikolaj Hansen jafnaði í blálokin.
Athugasemdir
banner
banner