Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 07. ágúst 2019 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Daði Freyr orðinn markmaður númer eitt hjá FH
Daði Freyr.
Daði Freyr.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gunnar Nielsen er hann handabrotnaði fyrr í sumar.
Gunnar Nielsen er hann handabrotnaði fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daði Freyr Arnarsson markvörður FH í Pepsi Max-deildinni fékk óvænt tækifæri í byrjunarliði FH fyrr í sumar eftir að bæði Gunnar Nielsen og Vignir Jóhannesson markverðir FH-inga höfðu meiðst með stuttu millibili. Fyrir þau meiðsli var Daði þriðji markvörður FH og ekki í leikmannahópi liðsins.

Daði ekki gert neinar gloríur
Daði spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild gegn Stjörnunni um miðjan júní og hann hefur haldið sæti sínu í byrjunarliðinu síðan þá þrátt fyrir að færeyski landsliðsmarkvörðurinn, Gunnar Nielsen sé orðinn leikfær.

„Gunni er orðinn góður af sínum meiðslum og heldur pressu á Daða. Daði hefur svosem ekki gert neinar gloríur og því hefur ekki verið nein ástæða til að taka hann úr liðinu. Daði situr á stöðunni eins og er en Gunni pressar á hann," sagði Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari FH í samtali við Fótbolta.net aðspurður út í það hvort Gunnar væri orðinn leikfær eða hvort hann væri enn að jafna sig af meiðslunum.

Miðað við þessa sögu Daða þá er greinilegt að hlutirnir geta verið fljótir að breytast í knattspyrnunni. Óli Kristjáns. þjálfari FH segir að stundum sé þetta nú svona í knattspyrnunni. Hann segir að það sé þó engin tilviljun að Daði Freyr sé í FH.

Goggunarröðin var öðruvísi
Daði er uppalinn fyrir vestan en í fyrra lék hann í 2. deildinni á láni frá FH með Vestra. Hann verður 21 árs seinna á árinu en hann lék sína fyrstu meistarflokksleiki með BÍ/Bolungarvík í 1. deildinni sumarið 2015. Eftir það fór hann til FH og lék með 2. flokki félagsins.

Síðustu tvö tímabil hefur hann hinsvegar verið lánaður vestur og spilað með Vestra í 2. deildinni.

„Það var engin tilviljun að við fundum Daða. Goggunarröðin var aðeins öðruvísi í upphafi móts en Daði greip sénsinn heldur betur og hefur gert það mjög vel," sagði Óli Kristjáns og bætir við að Daði eigi hrós skilið fyrir að grípa tækifærið þegar það gafst.

Flott samkeppni um markmannsstöðuna
Óli segir að Gunnar Nielsen taki þessu hlutskipti eins og honum einum er lagið. Hrósa mætti Gunnari einnig fyrir því hvernig hann hefur tekið því að vera á varamannabekknum í síðustu leikjum og bakkað hinn unga og efnilega Daða upp.

Gunnar varð fyrir því óláni að handabrotna í leik með FH í upphafi sumars.

„Auðvitað vill hann vera markmaður númer eitt í því liði sem hann spilar en hann sér það alveg að sá markmaður sem hefur komið inn núna hefur staðið sig vel. Gunni er fagmannlegur í því sem hann gerir, æfir vel og er mjög góður á æfingum. Þetta er því flott samkeppni um markmannsstöðuna," sagði Óli Kristjáns. þjálfari FH að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner