banner
   mið 07. ágúst 2019 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Foden: Langar stundum að biðja Silva og De Bruyne um áritun
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Phil Foden er talinn einn af efnilegustu táningum Englands og jafnvel Evrópu. Spiltími hans fyrir stórlið Manchester City hefur aukist til muna á milli ára og skoraði hann 7 mörk í 26 leikjum á síðustu leiktíð.

Hann er 19 ára gamall en er þegar orðinn faðir. Hógværðin hans skín í gegn í viðtölum og hefur Josep Guardiola gríðarlega miklar mætur á honum, bæði sem leikmanni og einstaklingi.

„Ég vakna upp á hverjum morgni og hugsa með mér að ferillinn sé að fara alltof hratt," sagði Foden og hristi bollann með morgunteinu. „Ég er ennþá ungur og að reyna að haga mér eðlilega en ég átta mig á því að ég þarf að fara að þroskast.

„Ég fer út og spila með David (Silva) og Kevin (De Bruyne) á hverjum degi en líður ennþá bara eins og aðdáanda. Mig langar stundum til að biðja þá um eiginhandaráritun, mér finnst þetta svo ótrúlegt."


Foden er ennþá lítill og léttur og segist vera fullkomlega meðvitaður um að hann eigi enn eftir að taka síðustu vaxtarkippina.

„Stundum er ég með minna jafnvægi og kem fótunum illa fyrir mig en ég veit að það er bara því ég er að stækka. Ég er með langar lappir en líkaminn á eftir að stækka meira, það kemur með tímanum. Stundum vildi ég óska þess að ég væri aðeins sterkari líkamlega en það er lítið sem ég get gert í því núna annað en að vera duglegur að lyfta og borða rétt.

„Ég hef alltaf verið minni en jafnaldrar mínir en var nógu góður tæknilega til að spila uppfyrir mig. Ég er vanur að spila við leikmenn sem eru stærri og sterkari en ég. Mér var alltaf sagt að ég væri með fótboltaheila og þeir gerðu mér erfitt fyrir mig að láta mig spila við stóra og sterka andstæðinga á æfingum. Ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið.

„Það hefur alltaf verið sparkað mikið í mig en það þýðir ekkert að kvarta, maður verður bara að harka af sér. Ég er ekki eini leikmaðurinn sem er svona, Bernardo er til dæmis pinkulítill en með ótrúlegan fótboltaheila. Hann skilar líka góðri varnarvinnu, hann tekur boltann af þér þó hann sé hvorki stærri né sterkari en þú."

Athugasemdir
banner
banner