mið 07. ágúst 2019 10:50
Elvar Geir Magnússon
Forseti Schalke tekur sér leyfi - Sakaður um rasisma
Clemens Toennies mætir á stjórnarfundinn. Að fundi loknum tilkynnti hann um þriggja mánaða leyfi.
Clemens Toennies mætir á stjórnarfundinn. Að fundi loknum tilkynnti hann um þriggja mánaða leyfi.
Mynd: Getty Images
Clemens Toennies, forseti Schalke, hefur tekið sér þriggja mánaða leyfi eftir að hafa verið sakaður um rasisma.

Toennies, sem er eigandi kjötframleiðslufyrirtækis, sagði á fréttamannafundi í síðustu viku að rétt væri að reisa fleiri orkustöðvar í Afríku í stað þess að hækka skatta til að vernda umhverfið.

„Þá myndu Afríkumenn hætta að höggva niður tré og búa til börn þegar það er myrkur," sagði hinn 63 ára Toennies.

Nokkrir fyrrum leikmenn Schalke hafa gagnrýnd Toennies og kallað eftir því að hann segi af sér. Gerald Asamoah, fyrrum framherji Þýskalands, er fæddur í Gana og segir að ummælin hafi gert sig orðlausan.

„Þessi ummæli komu mér á óvart, sjokkeruðu mig og særðu," sagði Asamoah.

Eftir fund með stjórn Schalke ákvað Toennies að stíga tímabundið til hliðar þar sem hann viðurkenndi að ummæli sín hefðu verið gegn siðareglum félagsins.

Í yfirlýsingu frá Schalke segir að Toennies hafi beðist afsökunar á ummælum sínum og sjái eftir þeim. Hann muni snúa aftur eftir þrjá mánuði.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner