Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 07. ágúst 2019 15:00
Arnar Daði Arnarsson
Skúli Jón leggur skóna á hilluna eftir tímabilið
Skúli Jón í leik með KR í sumar.
Skúli Jón í leik með KR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skúli Jón Friðgeirsson hyggst leggja knattspyrnuskóna á hilluna eftir tímabilið en hann flytur til Svíþjóðar eftir tímabilið og sest þar á skólabekk. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net.

„Ég ætla að díla við skólann um það að ég sleppi engum leikjum hér heima og flyt síðan út um leið og tímabilið er búið," sagði Skúli Jón sem ætlar að fara stunda nám við markaðsfræði í Svíþjóð.

„Ég fer sennilega út fyrstu dagana í september þegar landsleikjafríið er. Ég kem svo aftur og klára síðustu þrjá leikina með KR," sagði Skúli Jón sem býst ekki við öðru en að þetta verði hans síðasta tímabil í knattspyrnunni en vill þó ekki útiloka eitt né neitt.

„Það er hugsunin að ég sé búinn eftir þetta tímabil. Nú er ég bara á leiðinni út í nám og ætla kalla þetta gott í fótboltanum. Í rauninni býður líkaminn þannig lagað ennþá uppá það að halda áfram en þetta er ákvörðun sem ég er að taka. Án þess að ég sé að endanlega að loka á allt þá er ég samt að hætta."

Skúli Jón sem er nýorðinn 31 árs er uppalinn í KR og hefur leikið allan sinn feril hér á landi með KR. Hann lék um tíma sem atvinnumaður í Svíþjóð með Elfsborg og Gefle. Auk þess sem hann á að baki fjóra landsleiki fyrir Ísland.

Hann hefur leikið 235 leiki með KR í meistaraflokki og skorað í þeim átta mörk. Hann hefur komið við sögu í sjö leikjum liðsins í sumar en hann glímdi við höfuðmeiðsli á undirbúningstímabilinu og á tímabili var óvíst hvort hann myndi snúa aftur á völlinn.

Nú segir hann allt kapp lagt í það að klára tímabilið með titli og jafnvel titlum. KR er með 13 stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar eftir fimmtán leiki. Þá er liðið einnig í undanúrslitum Mjólkurbikarsins þar sem liðið mætir FH í undanúrslitum.

„Þegar ég tók þessa ákvörðun þá var draumurinn að klára þetta almennilega. Þetta lítur vel út akkúrat núna og vonandi geta strákarnir hjálpað mér að klára þetta allavegana með einum titli," sagði Skúli Jón Friðgeirsson að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner