Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 07. september 2018 13:30
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar spá í leik Sviss og Íslands
Icelandair
Frá æfingu landsliðsins í St. Gallen í dag.
Frá æfingu landsliðsins í St. Gallen í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren stýrir sínum fyrsta leik á morgun.
Erik Hamren stýrir sínum fyrsta leik á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni í leik Íslands gegn Sviss árið 2012.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni í leik Íslands gegn Sviss árið 2012.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson á æfingu í vikunni.
Kolbeinn Sigþórsson á æfingu í vikunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið spilar sinn fyrsta leik í Þjóðadeildinni á morgun klukkan 16:00 gegn Sviss í St. Gallen.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í spilin fyrir leikinn á morgun.



Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV
Sviss 3 - 1 Ísland
Það verður einhver HM þynnka í okkar mönnum en annars verður áhugavert að fylgjast með hversu mikið Hamren hefur náð til okkar leikmanna fyrir þennan fyrsta leik hans með liðið. Leikmenn tala um að þeir munu halda í gildin sem hafa þroskað liðið undanfarin ár og gert það jafn sterk og raunin er orðin en á sama tíma skynjar maður að breytingar eru í aðsigi. Áhugaverður leikur.

Guðjón Baldvinsson, Stjarnan
Sviss 0 - 0 Ísland
Okkar maður Hamren byrjar varlega og tekur varnarstig í fyrsta leik. Verður lítið um opin færi en Hannes ver samt víti um miðjan seinni hálfleik. Verður gaman að sjá hvort það verði einhver annar stíll á þessu en ég á von á mjög svipuðu liði og taktik og hefur verið enda er hann nýbúinn að taka við og haft lítinn tíma til að koma með nýjar áherslur og breyta því sem hann vill breyta.

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals
Sviss 2 - 1 Ísland
Maður er orðinn vel spenntur fyrir þessum leik. Verður virkilega gaman að sjá hvernig menn koma undan HM og hvernig nýtt þjálfarateymi setur þetta fyrsta dæmið upp og hvort eitthvað nýtt komi fram. Vissulega hefði kannski verið þægilegra að byrja á virðráðanlegra verkefni ef svo mætti segja en hinsvegar eru ekki miklar breytingar á mannskap og allt eru þetta reyndir og góðir spilarar sem hafa upplifað flest í þessu undanfarin misseri.
Þetta verður hörkuleikur og erfitt að fara þangað. Það verður örugglega ekki skorað jafn mikið og þegar liðin spiluðu síðast i Sviss en það verður eitthvað samt. Ég er hræddur um tap með einu marki því miður en vonandi ét ég það ofan í mig annað kvöld glaður í bragði.

Einar Örn Jónsson, RÚV
Sviss 2 - 1 Ísland
Þetta er leiðindasvartsýni í mér en ég held að Sviss sé með meira blóð á tönnunum eftir svekkjandi frammistöðu á HM. Ég held að þeir tapi ekki fyrir okkur á heimavelli sínum. Það vantar öfluga menn sem skilja eftir sig frekar stór skörð í okkar liði.

Kristinn Kjærnested, formaður KR
Sviss 2 - 1 Ísland
Þetta verður erfiður leikur fyrir okkar menn. Við erum án afar sterkra leikmanna sem eru fjarri góðu gamni vegna meiðsla og maður finnur pínulítið til með Erik Hamrén að hafa ekki fengið æfinga/vináttuleiki til að undirbúa liðið betur. Þjóðadeildin verður þarafleiðandi hálfgert æfingamót fyrir undankeppni EM 2020. Auðvitað veit maður að strákarnir munu leggja allt í sölurnar fyrir land og þjóð en mér finnst þessi keppni vera eins og Lengjubikarinn á vorin. Ég er ekki vongóður um hagstæð úrslit í þessari keppni en viss um að leikirnir gefi Erik möguleika á að koma sínum áherslum að í keppninni. Síðan fáum við algjöran draumadrátt í desember þegar dregið verður í undankeppni EM og neglum það þar, förum í þriðju lokakeppnina í röð. Það eru að mínu mati eðli málsins samkvæmt ekki miklar breytingar á leikmannahópnum sem hefur staðið sig frábærlega undanfarin misseri en ég held það verði bara ekki nóg í Þjóðadeildinni. Jafntefli yrðu afar góð úrslit í St Gallen en ég hallast því miður að tapi í leik þar sem heimamenn munu stjórna ferðinni og leiða 2-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur verður hinsvegar miklu betri hjá okkar mönnum, Kolbeinn kemur inná og klórar í bakkann undir lokin og hann verður svo hársbreidd frá því að jafna leikinn í uppbótartíma. Eftir leik þá verður helsta umræðan í fjölmiðlum sú hvurslags fáviti þessi forseti er hjá Nantes í Frakklandi. Áfram Ísland!

Fjalar Þorgeirsson, markmannsþjálfari Stjörnunnar
Sviss 1 - 1 Ísland
Þessi leikur verður engin flugeldasýning enda held ég að Hamrén fari varfærnislega inn í sitt fyrsta verkefni sérstaklega í ljósi þess að hann hefur ekki fengið neinn æfingaleik. Hann byggir á góðum grunni og mun síðan koma sínum áherslum inn jafnt og þétt. Varðandi leikinn sjálfan þá sé ég jafntefli í kortunum, annaðhvort 0-0 eða 1-1. Ég við skorum mun Sverrir Ingi skora eftir fast leikatriði.

Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur
Sviss 2 - 1 Ísland
Eiríkur Hermanns veit að maður hróflar ekki við sigurliði og ruggar ekki bátnum í fyrsta túr. Aflakóngurinn Shaquiri er með sjálfstraustið í botni þessa dagana þannig að markið er eins og tröllvaxin síldarnót í hans huga. Hann setur því tvennu. Jói Berg klórar í bakkann með hægri. Shaquiri og Xhaka hafa lært af reynslunni og fagna mörkunum ekki með albanska erninum því þá yrðu Serbarnir í Grindavík alveg bandbrjálaðir.

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals
Sviss 1 - 1 Ísland
Það verður gaman að sjá hvaða breytingar nýr þjálfari kemur inn með og gerir þennan leik meira spennandi fyrir stuðningsmenn Íslands. Held að Sviss komist yfir í leiknum með langskoti frá Granit Xhaka og þeir eiga eftir að sækja mikið í leiknum en íslenska liðið verst sóknarþunganum. Á 70. mínútu kemur jöfnunarmarkið og það gerir Gylfi Þór beint úr aukaspyrnu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner