banner
   fös 07. september 2018 07:00
Elvar Geir Magnússon
Viðar Örn: Reyni að nýta mér þetta sem nýtt upphaf
Icelandair
Viðar Örn í landsleik.
Viðar Örn í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Viðar Örn Kjartansson vonast til þess að koma sér í stærra hlutverk hjá landsliðinu í kjölfar þjálfaraskipta en Svíinn Erik Hamren tók við Íslandi eftir HM.

Viðar hefur ekki spilað mjög margar mínútur með landsliðinu undanfarin ár en hann hefur skorað tvö mörk í átján landsleikjum.

Elvar Geir spjallaði við Viðar og Jón Daða Böðvarsson í Innkasti frá Austurríki sem kom inn á Fótbolta.net og Podcast veitur í vikunni.

„Þegar ég kom fyrst inn í landsliðið byrjaði ég sem varamaður í undankeppninni og strákarnir unnu bara allt. Liðinu var ekkert breytt. Þegar ég var búinn að vera á bekknum í eitt ár varð ég kannsi værukær og þegar allt í einu kom tækifæri náði ég ekki að nýta það," sagði Viðar.

„Það er oft happa-glappa þegar maður kemur inn. Það var kannski andstæðan með Jón Daða sem skoraði í sínum fyrsta leik og náði flugstarti. Ég náði því ekki og þegar maður var orðinn viss um að vera á bekknum varð maður kannski smá kærulaus."

Jón Daði tók þá til máls í viðtalinu:

„Það er stutt á milli í þessu og oft er þetta 50/50 heppni. Stundum getur þú sem framherji skorað eitthvað ógeðslega ljótt mark, skotið í hálsinn á þér og inn. Það er stutt á milli í þessu og Viðar hefur verið óheppinn, það er ekki langt í að flóðgáttirnar opnist hjá honum," sagði Jón Daði áður en Viðar tók aftur „við boltanum".

„Það er kominn nýr þjálfari og nýtt blóð. Ég ætla að reyna að nýta mér það eins og þetta sé nýtt upphaf. Ég ætla að reyna að ná sjálfstrausti með landsliðinu. Það skiptir öllu máli að vera framherji með sjálfstraust. Ég fer inn í þetta ferskur," sagði Viðar.

Sjá einnig:
Innkast frá Austurríki - Jón Daði og Viðar Örn gestir
Athugasemdir
banner
banner