banner
   fim 07. nóvember 2019 19:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liverpool sleppur við refsingu vegna Origi-borðans
Divock Origi.
Divock Origi.
Mynd: Getty Images
Liverpool sleppur við refsingu frá UEFA vegna borða sem stuðningsmenn liðsins voru með í útileiknum gegn Genk í Meistaradeildinni.

Fram kemur í frétt Daily Mail að UEFA hafi ekki talið sig geta höfðað mál gegn Liverpool vegna þess að ekki var minnst á borðann í skýrslum leiksins.

Nokkrir stuðningsmenn Liverpool sem ferðuðust með til Belgíu tóku stóran borða með sér á leikinn. Á borðanum var svartur maður með stóran getnaðarlim í fullri reisn, en búið var að setja mynd af höfði Origi á borðann.

„Þetta er algjörlega óásættanlegt. Liverpool fordæmir þessa hegðun stuðningsmanna félagsins," sagði í yfirlýsingu frá Liverpool kvöldið sem liðið mætti Genk á útivelli.

Félagið var snöggt að bregðast við og fjarlægði borðann, en félagið sagði hann ýta undir rasíska staðalímynd.

Einnig kemur fram í grein Daily Mail að Liverpool hafi sett stuðningsmanninn, sem var ábyrgur fyrir borðanum, í tímabundið bann. Hann hafi ekki mátt mæta á neina af leikjum Liverpool upp á síðkastið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner