banner
   fös 07. desember 2018 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Scholes ekki viss um að Zidane sé rétti maðurinn fyrir United
Zinedine Zidane fíflar Paul Scholes er þeir mættust hér árum áður
Zinedine Zidane fíflar Paul Scholes er þeir mættust hér árum áður
Mynd: Getty Images
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur á BT Sport, er ekki viss um að Zinedine Zidane sé rétti kosturinn fyrir United.

Scholes hefur sterkar skoðanir á stjóramálunum hjá United en Jose Mourinho situr í heitu sæti og er liðið að fjarlægast toppbaráttunni með hverjum leiknum.

Liðið er 18 stigum á eftir nágrönnum þeirra í Manchester City sem er í efsta sætinu og er þegar farið að ræða það hver tekur við af Mourinho.

Zinedine Zidane hefur verið nefndur til sögunnar en hann hætti með Real Madrid eftir síðasta tímabil og gerði liðið að Evrópumeisturum þrjú tímabil í röð auk þess sem hann vann spænsku deildina og HM félagsliða.

„Er Zidane samt rétti maðurinn í starfið? Hann tók við Real Madrid sem var með tilbúið lið sem voru nú þegar sigurvegarar," sagði Scholes.

„Þetta er allt öðruvísi staða. Hann þarf að byggja upp sjálfstraust í hóp sem er ekki að standa sig í augnablikinu. Hann tók vissulega við Madrídingum sem innihélt þá marga frábæra leikmenn og það er alveg erfitt en þarna þarf hann að byggja upp lið," sagði hann í lokin.

Það er ljóst að Zidane er klár í slaginn eftir sex mánaða fjarveru frá þjálfun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner