lau 08. febrúar 2020 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gerrard vill ekki að stuðningsmenn missi sig út af Hagi
Ianis Hagi.
Ianis Hagi.
Mynd: Getty Images
Ianis Hagi er leikmaður sem við Íslendingar þurfum að hafa góðar gætur á þegar Rúmenía kemur í heimsókn á Laugardalsvöll í umspilinu fyrir EM 2020 í mars.

Hinn 21 árs gamli Hagi er sonur rúmensku goðsagnarinnar Gheorghe Hagi.

Hagi er miðjumaður sem sló í gegn á EM U21 landsliða síðastliðið sumar. Í kjölfarið keypti Genk hann í sínar raðir rá Viitorul Constanța, en núna er hann kominn til Rangers í Skotlandi á láni.

Stuðningsmenn Rangers voru gríðarlega spenntir fyrir komu Hagi og hann byrjar mjög vel fyrir félagið. Hann skoraði sigurmark gegn Hibernian í vikunni.

Steven Gerrard, þjálfari Rangers, kallar eftir því að stuðningsmenn Rangers fari rólega í væntingarnar gagnvart Hagi.

„Ég er viss um að fólk mun missa sig núna eftir að hann skoraði sigurmarkið í fyrsta byrjunarliðsleiknum. En hann þarf enn tíma til að aðlagast. Hann er greinilega með mikla hæfileika," sagði Gerrard.

Það verður væntanlega meira sparkað í Hagi í Skotlandi en í Belgíu. Gerrard er meðvitaður um það.

„Þannig er það bara, hann vissi það áður en kom. Hann er sterkur strákur - sterkari en hann lítur út fyrir að vera."

Staðan er þannig í Skotlandi að Rangers er í öðru sæti, sjö stigum á eftir Celtic. Rangers á leik til góða.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner