fös 08. maí 2020 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Yfirlýsing frá Kyle Walker: Hvenær er nóg komið?
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kyle Walker, varnarmaður Manchester City, hefur átt erfitt undanfarna mánuði. Kærasta hans til níu ára hætti með honum og var hann svo gripinn við að brjóta reglur um samkomubann vegna kórónuveirunnar.

Hann bauð vændiskonum heim til sín skömmu eftir að hafa birt myndband þar sem hann hvatti fólk til að virða samkomubann yfirvalda.

Walker fékk þunga sekt fyrir þetta athæfi sitt og gríðarlega mikla gagnrýni. Núna á miðvikudaginn sást svo til Walker þar sem hann ferðaðist innanlands og var í faðmlögum með systur sinni. Ákveðnir fjölmiðlar skrifuðu ítarlega um málið og nú segir Walker að honum sé nóg boðið.

„Ég hef þagað nógu lengi. Í ljósi nýjustu greinar sem var birt um mig og fjölskyldu mína tel ég mig knúinn til að tjá mig opinberlega um málið. Ég hef verið að ganga í gegnum eitt af erfiðustu tímabilum lífs mins, sem ég tek fulla ábyrgð á, en nú er þetta orðið að áreiti," segir í yfirlýsingu sem Walker birti á Instagram.

„Þetta hefur ekki aðeins áhrif á mig, heldur á fjölskyldu mína og ung börn mín. Hvað varðar atvikið á miðvikudaginn þá fór ég til Sheffield til að gefa systur minni afmælisgjöf og ræða við hana, enda er hún ein af fáum manneskjum sem ég get treyst í lífinu. Hún faðmaði mig til að minna mig á að ég er elskaður. Hvað átti ég að gera - ýta henni frá mér?

„Svo fór ég til foreldra minna að sækja heimatilbúinn mat. Þetta hafa verið mjög erfiðir mánuðir fyrir foreldra mína sem hafa gengið í gegnum þetta allt með mér. Hvað hafa foreldrar mínir og systir gert til að fréttamenn fái að ráðast svona inn í einkalíf þeirra?

„Mér líður eins og það sé alltaf verið að elta mig og ég finn ekki einu sinni fyrir öryggi á mínu eigin heimili. Af hverju ætti fjölskylda mín að þurfa að upplifa þetta líka? Hver á það skilið?

„Ég er mjög heppinn og nýt mikilla forréttinda sem atvinnumaður í knattspyrnu en á hvaða tímapunkti er byrjað að hugsa um mínar tilfinningar? Það er búið að slíta fjölskylduna mína í sundur í fjölmiðlum og ég spyr bara: hvenær er nóg komið?

„Hvenær byrjar fólk að spá í andlegu hliðinni á öllu þessu áreiti? Ég er manneskja með tilfinningar eins og allir aðrir."


Hinn 29 ára gamli Walker á yfir 250 úrvalsdeildarleiki að baki auk 48 A-landsleikja fyrir England.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner