mán 08. júlí 2019 21:20
Brynjar Ingi Erluson
Pepsi Max-kvenna: Valur kom til baka og skoraði fimm
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö fyrir Val
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö fyrir Val
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 1 - 5 Valur
1-0 Lillý Rut Hlynsdóttir ('14 , sjálfsmark)
1-1 Fanndís Friðriksdóttir ('47 )
1-2 Margrét Lára Viðarsdóttir ('54 )
1-3 Margrét Lára Viðarsdóttir ('60 )
1-4 Dóra María Lárusdóttir ('71 )
1-5 Málfríður Anna Eiríksdóttir ('89 )

Valur sigraði Keflavík, 5-1, í 9. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.

Keflavík hafði unnið síðustu tvo leiki gegn KR og Stjörnunni og fór þetta vel af stað hjá liðinu á Nettóvellinum í kvöld.

Sveindís Jane Jónsdóttir átti fyrirgjöf fyrir mark Valsara og varð Lillý Rut Hlynsdóttir fyrir því óláni að koma knettinum í eigið net. Liðið náði að halda út hálfleikinn en Valsliðið kom öflugt inn í þann síðari.

Fanndís Friðriksdóttir jafnaði á 47. mínútu. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir átti þá skot sem rataði á Fanndísi og hún átti ekki í neinum vandræðum með að skora í vinstra hornið.

Margrét Lára Viðarsdóttir bætti þá við tveimur mörkum á stuttum tíma. Elín Metta Jensen lagði þá upp fyrir hana og skoraði Margrét með viðstöðulausi skoti. Hún var þá ein á auðum sjó í því síðara og kláraði vel.

Dóra María Lárusdóttir gerði fjórða mark Vals. Hallbera Guðný Gísladóttir átti aukaspyrnu sem Aytac Sharifova varði út í teiginn á Dóru sem skoraði með glæsilegu skoti. Málfríður Anna Eiríksdóttir rak svo síðasta naglann í kistuna aftur eftir að Aytac hafði varið skot út í teiginn og lyfti Málfríður boltanum yfir hana og í netið.

Valur aftur á siglingu eftir jafntefli gegn Blikum í síðustu umferð og er liðið með 25 stig í efsta sæti deildarinnar á meðan Keflavík er í 8. sæti með 6 stig.
Athugasemdir
banner
banner