mán 08. júlí 2019 22:12
Brynjar Ingi Erluson
Yfirmaður íþróttamála hjá PSG: Neymar má fara
PSG virðist vera búið að fá nóg af Neymar
PSG virðist vera búið að fá nóg af Neymar
Mynd: Getty Images
Leonardo, nýráðinn yfirmaður íþróttamála hjá Paris Saint-Germain, segir að Neymar sé frjálst að fara frá félaginu ef félagið fær sanngjarnt tilboð í hann. Le Parisien greinir frá.

Brasilíska stjarnan virðist vera að skapa stórt vandamál innan leikmannahópsins og hefur hann síðustu mánuði verið orðaður við Barcelona.

Hann kom frá Barcelona árið 2017 fyrir metfé en hefur lítinn sem engan áhuga á að vera hjá PSG. Hann hefur komist í fréttirnar fyrir slæma hegðun innan og utan vallar en hann vill komast aftur til Barcelona.

Neymar hefur verið í viðræðum við Barcelona og er það nú undir spænska félaginu komið að ná samkomulagi við PSG.

Leonardo var ráðinn yfirmaður íþróttamála á ný eftir að hafa verið hjá Milan í eitt ár en hann segir að Neymar megi fara.

„Neymar má fara ef það næst sanngjarnt samkomulag um kaupverð. Við vitum þó ekki til þess að eitthvað félagi vilji kaupa hann né hvað félög eru tilbúin að borga. Svona hlutir gerast ekki á einum sólarhring," sagði Leonardo.

„Það er öllum ljóst að Neymar vill fara frá félaginu. Við vitum stöðuna á honum og allir í kringum hann líka. Höfum samt eitt á hreinu að hann á þrjú ár eftir af samningnum og við höfum ekki fengið tilboð og því getum við ekki rætt þetta."

„PSG vill treysta á leikmenn sem vilja vera hérna og vera partur af einhverju ótrúlegu. Við þurfum ekki leikmenn sem halda að þeir séu að gera okkur greiða."

„Barcelona er búið að vera í sambandi við okkur og það hafa verið einhverjar óformlegar viðræður. Bartomeu er sá sem er að tala um hann en ég get ekki séð að Barcelona sé í stöðu til að kaupa hann,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner