Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 08. ágúst 2019 14:09
Elvar Geir Magnússon
Ánægður með það hversu mikið VAR klúðraðist í sumar
Neil Swarbrick dómari í VAR herberginu í London.
Neil Swarbrick dómari í VAR herberginu í London.
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin fer af stað annað kvöld þegar Liverpool og Norwich eigast við en í fyrsta sinn verður notast við VAR myndbandsdómgæslukerfið í öllum leikjum deildarinnar.

Í sérstökum upphitunarþætti fyrir tímabil Liverpool var rætt við Magnús Þór Jónsson og Sigurstein Brynjólfsson af kop.is. Þeir eru báðir dómarar hjá KSÍ og innkoma VAR var rædd.

„Það eru skiptar skoðanir meðal fótboltaunnenda en mér lýst vel á þetta. Ég er rosalega ánægður með hversu mikið þessu var klúðrað á HM kvenna og Copa America í sumar því menn hljóta að segja: Svona gerum við þetta ekki!" segir Sigursteinn.

„Í mínum huga er VAR komið til að vera. Þetta snýst bara um að gera þetta almennilega. Þetta á ekki að taka langan tíma. Við eigum að læra af því sem gerðist í sumar."

Englendingar segjast ætla að nota VAR aðeins í tilfellum þar sem það sést 100% augljóslega að um mistök hafi verið að ræða. VAR er hægt að nota þegar um mistök er að ræða varðandi mörk, vítaspyrnur, bein rauð spjöld eða þegar dómari ruglast á leikmönnum. Það er aðaldómarinn sem mun alltaf taka endanlega ákvörðun.

„Neil Swarbrick var að kynna þetta á Sky og hann talaði að þetta yrði aðeins notað í atvikum sem væru alveg skýr og ætla ekki að teygja sig eins langt hvað varðar rangstöður eins og við höfum verið að sjá. Það á að búa til ákveðna línu," segir Magnús Þór.

„Það er lykilatriði að það sé traust milli þess sem er í VAR herberginu og dómarans, að ekki sé verið að eyða of miklum tíma í að stöðva leikinn og fara að horfa á einhvern skjá. Á HM kvenna var ljóst að dómararnir höfðu ekki nægilega mikið sjálfstraust til að taka stóru ákvarðanirnar."

Hlustaðu á upphitunarþáttinn í hlaðvarpsveitum, hér að neðan eða með því að smella hérna.
Enska upphitunin - Lokað á skrifstofu Liverpool
Athugasemdir
banner