Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 08. september 2019 12:37
Brynjar Ingi Erluson
Valur vill breyta mótinu - Úrslitakeppni bætt við
Edvard Börkur Edvardsson, formaður Vals.
Edvard Börkur Edvardsson, formaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Valsmenn fagna marki í sumar
Valsmenn fagna marki í sumar
Mynd: Eyþór Árnason
Hugmyndin er að hafa áfram 22 umferðir en bæta við úrslitakeppni og yrðu leikirnir þá 32 í heildina
Hugmyndin er að hafa áfram 22 umferðir en bæta við úrslitakeppni og yrðu leikirnir þá 32 í heildina
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Knattspyrnufélagið Valur vill breyta fyrirkomulagi í Pepsi Max-deild karla og fjölga leikjum með því að bæta við úrslitakeppni en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu á heimasvæði þess á Facebook.

Íslandsmótið er í dag 22 leikir en mótið hefst iðulega í lok apríl og endar í lok september.

Edvard Börkur Edvardsson, formaður Vals, greindi frá tillögu við Morgunblaðið árið 2004 þar sem hann taldi réttast að lengja mótið og stytta undirbúningstímabil til að bæta við fleiri leikjum með það í hugar að fá betri knattspyrnu og betri knattspyrnumenn.

„Deildarkeppnin er stutt og leikmenn og stjórnendur félaganna leggja á sig gríðarlega vinnu fyrir stutt keppnistímabil.
Nauðsynlegt er að stytta undirbúningstímabilið og lengja íslandsmótið með fleiri leikjum. Þannig tel ég að við fáum betri knattspyrnu og um leið fleiri og betri knattspyrnumenn,"
sagði Edvar við Morgunblaðið árið 2004.

Knattspyrnudeild Vals birti á heimasvæði sínu á Facebook í dag að það þurfi breytingar á mótinu og er þá hugmyndin að spila áfram 22 leiki í deild en bæta við úrslitakeppni þar sem sex efstu liðin berjast um titilinn á meðan sex neðstu félögin berjast við að halda sæti sínu í deildinni.

Mótið myndi hefjast í byrjun apríl og þá á gervigrasvöllum og hugsanlega spila einhverja leiki í landsleikjahléum. Hér fyrir neðan má sjá tillögu Vals í heild sinni.

Tillaga Vals:

„Deildarkeppnin er stutt og leikmenn og stjórnendur félaganna leggja á sig gríðarlega vinnu fyrir stutt keppnistímabil.
Nauðsynlegt er að stytta undirbúningstímabilið og lengja íslandsmótið með fleiri leikjum. Þannig tel ég að við fáum betri knattspyrnu og um leið fleiri og betri knattspyrnumenn," Þetta sagði E. Börkur formaður knattspyrnudeildar Vals árið 2004 í viðtali í Morgunblaðinu.

Nú 15 árum síðar á þetta enn frekar við þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á deildinni á þessum tíma.

Það er mat Vals að skoða þurfi breytingar á deildarkeppninni frekar. Þróunin á undanförnum árum er sú að nú er þjálfurum og leikmönnum greidd laun í 10 -12 mánuði á ári en á sama tíma stendur íslandsmótið aðeins yfir í rétt rúma 5 mánuði.

Ef íslensk lið ætla að ná betri árangri í Evrópukeppnum í framtíðinni þá þarf að gera mikið meiri kröfur, fjölga gæða leikjum og lengja tímabilið. Það eru nokkrir möguleikar fyrir hendi má t.d nefna að fjölga liðum um tvö og leika 26 leiki, fækka liðum um tvö og leika 3 umferðir, þannig verða leikirnir 27. Annar möguleiki er að gera meira úr lengjubikarnum og byrja hann 1.febrúar en þá þarf að færa félagskiptagluggan til loka janúar. Ef þessi leið væri farin þá þyrftu einhverjir leikir að fara fram innanhús og skoða þyrfti sérstaklega hver verðlaunin þyrftu að vera fyrir sigurvegara t.d peningar, evrópusæti til að fá meiri alvöru í mótið.

Það er hinsvegar mat Vals að best sé að halda sér við 12 liða deild þar sem leiknar yrðu 22 umferðir með úrslitakeppni þar sem 6 efstu liðin fara í keppni um titilinn sama á við 6 neðri liðin sem spila þá um tvö fallsæti (svipað og er í Danmörku)
Með þessu er verið að fjölga leikjum um 10 hjá hverju liði og leiknar verða alls 32 umferðir.

Til að ná þetta mörgum umferðum þarf mótið að standa yfir frá 1.apríl til ca 10.október og fyrstu umferðirnar yrðu að fara fram á gervigrasvölllum þar sem ólíklegt er að vellir með náttúrugrasi verði tilbúnir. Til að koma mótinu fyrir í þennan tímaramma þá þyrfti hugsanlega að leika einhverja leiki í landsleikjahléum.

Knattspyrnudeild Vals

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner