fim 08. nóvember 2018 12:30
Magnús Már Einarsson
Leikmenn Real Madrid vilja halda Solari í starfi
Solari gæti fengið starfið út tímabilið.
Solari gæti fengið starfið út tímabilið.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Real Madrid hafa lýst yfir áhuga á að halda Santiago Solari sem þjálfara út tímabilið eftir gott gengi í síðustu leikjum.

Solari tók tímabundið við Real Madrid eftir að Julen Lopetegui var rekinn í síðustu viku. Real Madrid vann Viktoria Plzen 5-0 í Meistaradeildinni í gærkvöldi eftir að hafa áður unnið Valladolid í deildinni og Melilla í bikarnum.

Hinn 41 árs gamli Solari er fyrrum leikmaður Real Madrid en hann hefur verið þjálfari varaliðs félagsins. Real Madrid þarf að ákveða á næstu dögum hvort Solari verði þjálfari út tímabilið og hann virðist hafa stuðning leikmanna.

„Julen er frábær þjálfari en við erum með Solari núna og spilum af meira sjálfstrausti. Að mínu mati ætti hann að vera áfram út tímabilið," sagði Karim Benzema sem var maður leiksins í gær.

„Fólk getur talað um hvort einhver annar eigi að koma og taka við eða ekki en við sýnum honum virðingu sem þjálfari Madrid. Ef hlutirnir ganga vel, af hverju ekki að gefa honum sénsinn?" sagði Casemiro.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner