banner
   lau 08. desember 2018 15:27
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Höfum ekki áhuga á því sem önnur lið gera
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp er ánægður með öruggan sigur sinna manna á útivelli gegn Bournemouth. Mohamed Salah skoraði þrennu í leiknum og hrósaði Klopp honum í hástert.

Liverpool er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigrinum en Manchester City getur endurheimt toppsætið með sigri á útivelli gegn Chelsea síðar í dag.

„Við spiluðum mjög þroskaðan leik, skoruðum mark og stjórnuðum leiknum. Mo skoraði stórkostleg mörk. Bournemouth er búið að eiga mjög gott tímabil og það er sérstakt að koma hingað og vinna svona örugglega," sagði Klopp.

„Við höfum ekki áhuga á því sem önnur lið gera. Við einbeitum okkur að því að vinna hvern einasta leik og svo kemur í ljós hvernig staðan verður í titilbaráttunni. Núna fer öll okkar einbeiting í næsta leik gegn Napoli sem er eftir þrjá daga."

Fyrsta mark Salah í leiknum var rangstöðumark en aðstoðardómarinn flaggaði ekki. Eddie Howe, stjóri Bournemouth, telur markið hafa breytt gangi leiksins en Klopp segist ekki vera búinn að sjá það.

„Ég veit ekki hvort þetta hafi verið rangstaða, ég er ekki búinn að sjá markið. Annað markið sem Mo skorar er glæsilegt og ég held ekki að margir geti gert það sem hann gerði þarna.

„Þriðja markið var frábært. Það var mjög svalt og hjálpaði okkur auðvitað. Mo átti stórkostlegan dag."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner