mið 09. janúar 2019 21:42
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Manchester City skoraði níu á Etihad
Gabriel Jesus og Oleksandr Zinchenko fagna
Gabriel Jesus og Oleksandr Zinchenko fagna
Mynd: Getty Images
Gabriel Jesus skoraði fjögur mörk í kvöld
Gabriel Jesus skoraði fjögur mörk í kvöld
Mynd: Getty Images
Manchester City 9 - 0 Burton Albion
1-0 Kevin de Bruyne ('5 )
2-0 Gabriel Jesus ('30 )
3-0 Gabriel Jesus ('34 )
4-0 Oleksandr Zinchenko ('37 )
5-0 Gabriel Jesus ('57 )
6-0 Phil Foden ('62 )
7-0 Gabriel Jesus ('65 )
8-0 Kyle Walker ('70 )
9-0 Riyad Mahrez ('83 )

Manchester City slátraði Burton Albion 9-0 í fyrri undanúrslitaleik þessara liða í enska deildabikarnum í kvöld en leikurinn fór fram á Etihad-leikvanginum í Manchester.

Það sást strax í hvað stefndi á Etihad-leikvanginum í kvöld en fyrsta markið kom á 6. mínútu er Kevin de Bruyne skallaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf frá David Silva. Tólf mínútum síðar kom Riyad Mahrez boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Gabriel Jesus átti næsta mark og kom hann mikið við sögu í leiknum en hann gerði markið eftir að Bradley Collins hafði varið skot Leroy Sane í átt að Jesus. Brasilíski framherjinn náði svo að skalla boltann í netið af stuttu færi.

Jesus bætti við öðru á 34. mínútu en Ilkay Gundogan var arkitektinn að markinu. Hann átti frábæra sendingu á David Silva sem skilaði honum á Jesus. Það þurfti að notast við myndbandstæknina í markinu en markið fékk að standa.

Úkraínski landsliðsmaðurinn Oleksandr Zinchenko skoraði svo fyrsta mark sitt fyrir City er hann lét vaða af 25 metra færi og yfir Collins. Það voru einhverjar deilur um hvort hann hafi ætlað að gefa fyrir eða ekki en Zinchenko pælir eflaust lítið í því.

Staðan var 4-0 í hálfleik en City var þó hvergi nálægt því að vera hætt að skora. Jesus fullkomnaði þrennu sína í byrjun síðari hálfleiks með góðum skalla.

Gundogan var einn besti maður vallarins og hélt áfram að sína snilli sína er hann bjó til mark fyrir varamanninn Phil Foden sem skoraði. Önnur snertingin hans Foden í leiknum.

Jesus skoraði fjórða mark sitt í leiknum og sjöunda mark leiksins en Leroy Sane lagði það upp með góðri fyrirgjöf. Kyle Walker var síðan næstur í röðinni er hann skoraði af stuttu færi úr teignum.

Mahrez var allt í öllu í leiknum líkt og Gundogan en það var því við hæfi að Mahrez skoraði níunda markið. Nigel Clough, stjóri Burton, var líklegast farinn að hugsa um að binda fyrir augun á sér að hætti Söndru Bullock í myndinni Birdbox, enda martraðarleikur fyrir Burton.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 9-0 fyrir Manchester City og er óhætt að segja það að liðið spili úrslitaleikinn í þessari keppni en spurningin er hvort það verði gegn Chelsea eða Tottenham Hotspur.
Athugasemdir
banner
banner
banner