mið 09. janúar 2019 22:21
Brynjar Ingi Erluson
Guardiola: Við erum komnir í úrslit
Pep Guardiola reynir að hughreysta Bradley Collins sem fékk á sig níu mörk í kvöld
Pep Guardiola reynir að hughreysta Bradley Collins sem fékk á sig níu mörk í kvöld
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City á Englandi, var í skýjunum með 9-0 sigur liðsins á Burton í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum.

Lærisveinar Guardiola voru nokkrum númerum of stórir fyrir Burton í kvöld og tókst City að raða inn mörkum.

„Úrslitin voru góð og við erum auðvitað komnir í úrslit en þurfum samt að spila síðari leikinn. Við munum taka honum alvarlega og Burton hefur átt ótrúlegu gengi að fagna í þessari keppni. Þeir verða að vera stoltir yfir því og þeir hafa gert vel," sagði Guardiola.

Gabriel Jesus skoraði fjögur fyrir City í kvöld og var Guardiola sérstaklega ánægður með hann.

„Framherjar þurfa að skora mörk og Gabriel Jesus hefur verið að fá færin í síðustu leikjum og í dag skoraði hann. Hann er mjög svo mikilvægur."

„Það er ekki auðvelt að spila gegn liðum í neðri deildunum en við náðum góðum hlaupum bakvið vörnina og tókum þessu alvarlega. Eftir annað og þriðja markið þá varð þetta auðveldara og hraðinn varð meiri í okkar leik."


Guardiola ætlaði að fá sér vín með Nigel Clough, stjóra Burton, eftir leikinn en hann er sonur Brian Clough sem vann marga stóra titla með Derby County og Nottingham Forest. Hann vann meðal annars Evrópukeppni meistaraliða tvisvar en sú keppni þekkist best undir nafninu Meistaradeild Evrópu í dag.

„Ég ætla að fá mér vínglas með NIgel Clough. Ég veit hversu mikilvægur faðir hans var fyrir enskan fótbolta, það var alger snillingur. Það verður gaman að eyða stund með honum," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner