Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 09. janúar 2022 21:31
Brynjar Ingi Erluson
Sarr tjáir sig í fyrsta sinn - „Ég hef aldrei nauðgað og er alfarið á móti nauðgunum"
Babacar Sarr í leik með Selfyssingum
Babacar Sarr í leik með Selfyssingum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Senegalski miðjumaðurinn Babacar Sarr segist allsaklaus af þeim ásökunum sem bornar eru á hann en hann er eftirlýstur af Interpol og hefur verið síðustu tvö ár vegna nauðgunarmáls í Noregi.

Sarr spilaði með Selfyssingum árið 2011 og 2012 áður en hann hélt út í atvinnumennsku og spilaði með Start. Árið 2016 samdi hann við Molde.

Árið 2018 var hann kærður fyrir nauðgun en var sýknaður í ágúst sama ár af ríkinu. Málinu var áfrýjað og áttu vitnaleiðslur að fara fram í febrúar árið 2019 en því hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Sonni Nattestad, fyrrum leikmaður FH og Fylkis, var liðsfélagi Sarr hjá Molde og var aðalvitni í nauðgunarmálinu en hafnaði því að koma fyrir rétt þar sem hann taldi það mikilvægara að spila æfingaleik með danska liðinu Fredericia.

Sarr hefur ekki sést síðan en hann hefur spilað í bæði Rússlandi og Sádi Arabíu áður en hann snéri aftur til Senegal. Sarr er eftirlýstur af Interpol en í fyrsta sinn hefur hann tjáð sig við norska miðilinn Romsdals Budstikke og neitar hann þar sök og útskýrir fjarveruna.

„Ég var klár í að mæta í fyrstu réttarhöldin þegar ég var að spila í Rússlandi. Þeim var hins vegar frestað því Sonni (Nattestad) gat ekki mætt. Seinna skiptið sem þeir báðu mig um að mæta þá gat lögfræðingur minn (Mette Yvonne Larsen) ekki verið á svæðinu og í þriðja skiptið var ég í Senegal og atvinnuleyfi var útrunnið. Það er ástæðan."

Sarr segist óviss hvort hann hafi fengið stefnuna í bréfi en að lögfræðingar hans hafi ítrekað reynt að hafa samband við saksóknara málsins.

„Jú, ég held að ég hafi fengið það, en ég man það ekki. Ég er ekki lengur með sama netfang. Ég get ekki haft samband við norsk yfirvöld, það er í verkahring lögfræðingsins."

„Mette Yvonne sér um mín mál í Noregi. Ég er líka með lögfræðinga í Frakklandi og Senegal. Þeir reyndu að tala við Ingvild Thorn Nordheim, saksóknara, en hún hefur ekki svarað til þessa."

„Við höfum talað um það en þá var ég þegar eftirlýstur og það finnst mér ekki í lagi. Ég vil ekki fara þangað sem glæpamaður heldur vil ég koma af fúsum og frjálsum vilja."


Sarr neitar allri sök í málinu og segist alfarið á móti nauðgunum og að hann vilji snúa aftur til Noregs án þess að eiga í hættu að vera handtekinn. Hann vill koma sem frjáls maður.

„Ég fór ekki frá Noregi til að fara í felur. Sem atvinnumaður í fótbolta þá get ég ekkert falið mig hvar sem er. Ef ég fer til Rússlands eða Sádi Arabíu þá er það af því ég þarf að spila fyrir félög í þeim löndum. Það eru margir leikmenn sem vinna þar og allir vita að það er vel borgað þar. Þetta hefur ekkert með flótta að gera. Ef ég hefði viljað flýja þá hefði ég getað gert það þegar ég fór í frí eftir fyrsta málið sem ég vann. Ég legg aldrei á flótta og ég vil segja það áfram að ég hef aldrei nauðgað og er alfarið gegn nauðgunum."

„Ég vildi alltaf koma til Noregs til að ganga frá þessu máli. Ég vil koma af frjálsum vilja og ekki vera handtekinn af lögreglunni og tekinn til Noregs. Ég vil ferðast frá eigin landi til Noregs og klára þetta. Ég er ekki glæpamaður og verð það aldrei,"
sagði hann ennfremur.

Saksóknarinn segir langt síðan hún heyrði frá Sarr

Ingvild Thorn Nordheim, saksóknarinn í málinu, segir það langt síðan hún heyrði frá lögfræðingum Sarr en hún segir það fréttir að hann vilji koma af fúsum og frjálsum vilja til Noregs.

„Það er langt síðan ég heyrði frá honum án þess að geta sagt nákvæmlega hvenær það var. Það er samt erfitt að segja hvenær hægt er að hefja málið aftur. Ef hann er handtekinn og settur í gæsluvarðhald, þá er þetta sett í forgang."

„Það er mjög eðlilegt að hann verði handtekinn ef hann er eftirlýstur. Þær fréttir að hann ætli að koma sjálfviljugur er eitthvað sem ég er að heyra í fyrsta sinn,"
sagði hún.

Sjá einnig:
Sonni ósáttur við Jerv: Vissu allir í Noregi af þessu
Hætt við að fá Sonni vegna nauðgunarmáls Babacar Sarr í Noregi
Fyrrum Selfyssingum hefur verið eftirlýstur í 194 löndum í tvö ár
Athugasemdir
banner
banner