lau 09. maí 2020 23:28
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Ási Arnars: Áfall fyrir okkur og högg í magann
Ásmundur Arnarsson og Bergsveinn Ólafsson glaðir í bragði síðasta sumar.
Ásmundur Arnarsson og Bergsveinn Ólafsson glaðir í bragði síðasta sumar.
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hann var stór karakter í okkar hóp og mikill leiðtogi," segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, um Bergsvein Ólafsson í viðtali við útvarpsþáttinn Fótbolti.net.

Bergsveinn var fyrirliði Fjölnis en þau
óvæntu tíðindi bárust að hann ákvað að leggja skóna á hilluna.

Þessi 27 ára varnarmaður sem er Fjölnismaður út í gegn segist hafa misst áhugann á fótbolta og Ásmundur neitar því ekki að þessar fréttir hafi verið reiðarslag.

„Það er auðvitað hárrétt. Þegar hann bað okkur um að ræða við sig á fimmtudaginn þá átti maður á dauða sínum von frekar en að heyra þessar fréttir," segir Ásmundur.

„Þetta er áfall fyrir okkur og högg í magann en þetta er ein af þeim áskorunum sem þarf að takast á við. Aðrir menn í hópnum þurfa að stíga upp, það er spennandi sumar og margir að stíga sín fyrstu skref."

Ásmundur segir að reynt hafi verið að telja Bergsveini hughvarf og fá hann til að halda áfram.

„Já við reyndum það. Við reyndum að fá hann til að tefja lokaákvörðunina og sjá hvort að það væri þörf á því að gera þetta á þessum tímapunkti. Við vildum að sjálfsögðu halda honum áfram í hópnum. En ef leikmaður vill ekki vera þá ertu ekki að fara að ýta honum inn á völlinn."

Fjölnir komst upp úr 1. deildinni í fyrra en hefur misst þrjá af sínum bestu mönnum. Danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen sem valinn var bestur í 1. deild í fyrra var á láni frá Val og er kominn aftur á Hlíðarenda, sóknarmaðurinn Albert Brynjar Ingason vildi ekki taka slaginn í efstu deild og fór í Kórdrengi og svo kom þessi ákvörðun Bergsveins.

„Þetta er ekki sú þróun sem við vildum hafa. Við ræddum bæði við Rasmus og Albert um að vera áfram en það þróaðist svona. Reynsla er eitthvað sem við erum ekki ríkir af í augnablikinu en við erum með unga metnaðarfulla stráka sem vilja sýna sig og sanna. Það er okkar að vinna með það," segir Ásmundur.

Fjölni er spáð falli beint aftur niður í 1. deildina en Ásmundur vonast til þess að geta styrkt leikmannahóp sinn fyrir tímabilið. Það hefur verið í forgangi hjá félaginu að fá inn sóknarmann.

„Það er ekkert launungarmál að fyrir Covid þá vorum við að leita að 'senter' og við erum að líta í kringum okkur."

Sjá einnig:
Beggi Ólafs: Erfiðasta sem ég hef gert í langan tíma
Ótímabær spá fyrir Pepsi Max byggð á sandi - Blaut tuska fyrir Fjölni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner