sun 09. júní 2019 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Bakayoko verður áfram hjá Chelsea
Mynd: Getty Images
Franski miðjumaðurinn Tiemoue Bakayoko heldur aftur til Chelsea eftir að hafa verið allt tímabilið hjá AC Milan að láni.

Bakayoko kostaði 40 milljónir punda sumarið 2017 og spilaði 43 leiki en mistókst að hrífa menn hjá Chelsea. Sett voru spurningamerki við hegðun hans og metnað. Að lokum var Bakayoko lánaður til Ítalíu.

Hann átti einnig erfitt uppdráttar með Milan en fékk þó góðan spiltíma rétt eins og hjá Chelsea. Hann spilaði 42 leiki á tímabilinu en undir lokin lenti hann í rifrildi við Gennaro Gattuso, þjálfara Milan, og var að lokum látinn fara.

Milan greiddi 5 milljónir evra til að fá hann lánaðan og hefði þurft að punga út 35 milljónum í viðbót til að ganga frá kaupunum.

„Við höfum fengið mikið af tilboðum en Chelsea kemur efst í forgangsröðinni. Félagið er í Meistaradeildinni og vill Tiemoue fá stöðugleika inn í líf sitt," sagði Abdoulaye Bakayoko, bróðir TIemoue og umboðsmaður hans, við L'Equipe.

„Þess vegna hefur hann ákveðið að vera áfram hjá Chelsea í London."

Þetta eru fínar fréttir fyrir Chelsea sem má ekki kaupa nýja leikmenn í sumar.

Bakayoko verður 25 ára í ágúst og gerði garðinn frægan sem lykilmaður á sterkri miðju Mónakó. Hann á einn A-landsleik að baki fyrir Frakkland og 27 fyrir yngri landsliðin.
Athugasemdir
banner
banner