Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 09. júlí 2018 12:35
Magnús Már Einarsson
Guðni bjartsýnn á að Heimir semji - „Erum að fara í næsta skref"
Icelandair
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við höfum ákveðið að fara í viðræður með það að markmiði að gera áframhaldandi samning um að hann verði þjálfari karlalandsliðsins. Þetta er markmið sem við höfum sett okkur. Það á eftir að ganga frá málum en ég er bjartsýnn á að þetta takist," sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, við Fótbolta.net í dag aðpsurður út í stöðuna á samningamálum Heimis Hallgrímssonar.

Samningur Heimis við KSÍ rann út eftir HM á dögunum. Heimir hefur ákveðið að ganga aftur að samningaborðinu með KSÍ og Guðni er bjarsýnn á að samningar náist á næstunni.

„Ég er að vona að þetta eigi ekki eftir að taka meira en eina til tvær vikur. Við ætlum að ræða málin núna í vikunni og hittast við tækifæri til að reyna að ganga frá þessu. Það er markmiðið að hálfu KSÍ og Heimir er tilbúinn að setjast niður með okkur."

Guðni segist alltaf hafa verið bjartsýnn á að halda Heimi við stjórnvölinn.

„Ég hef alltaf verið bjartsýnn á þetta og núna erum við að taka næsta skref. Við ræddum þetta aðeins eftir HM og áður líka. Við erum ekki að byrja á núllpunkti með þetta. Þróunin í þessu er búin að vera jákvæð. Við erum að fara í næsta fasa og ég vona að við náum að klára þetta fljótlega."

Heimir bað sjálfur um að fá 1-2 vikur til að skoða sína möguleika eftir HM en hann hefur meðal annars verið orðaður við störf erlendis. Hann hefur nú ákveðið að ræða við KSÍ um framhaldið.

„Það var samkomulag um að fá aðeins að blása eftir HM. Heimir þurfti að fá smá tíma til að hugsa málið og fá smá andrými. Það var sjálfsagt og eðlilegt að gefa þann tíma. Við ræddum síðan aftur saman og ætlum að halda áfram viðræðum með það markmiði að ná samkomulagi og ég er bjartsýnn á að það takist," sagði Guðni að lokum.

Heimir var aðstoðarþjálfari Lars Lagerback með liðið 2012 og 2013 en þeir þjálfuðu Ísland síðan saman 2014, 2015 og 2016. Eftir EM í Frakklandi 2016 tók Heimir einn við sem aðalþjálfari.
Athugasemdir
banner
banner
banner