Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 09. ágúst 2018 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Parma fær ekki mínusstig - Leikbannið stytt um 18 mánuði
Mynd: Getty Images
Sögufræga félagið Parma varð gjaldþrota fyrir þremur árum og þurfti að byrja upp á nýtt í Serie D, lægstu deild ítalska boltans.

Félagið afrekaði það að fara beint upp um deild þrjú ár í röð og er því komið beint aftur upp í deild þeirra bestu.

Það vantaði þó ekki dramatíkina er Parma komst upp úr Serie B í vor með 2-0 sigri gegn Spezia sem þótti lykta af hagræðingu.

Leikurinn var grandskoðaður og í ljós komu smáskilaboð sem Emanuele Calaio og Fabio Ceravolo, sóknarmenn Parma, sendu á tvo félaga sína hjá Spezia.

Ceravolo slapp við refsingu en smáskilaboð Calaio þóttu ekki sniðug enda var hann að biðja Filippo De Col um að tapa leiknum gegn sér.

Allir málsaðilar héldu því fram að um grín hafi verið að ræða en knattspyrnuyfirvöld á Ítalíu voru ekki ánægð og dæmdu Calaio í tveggja ára bann og gáfu Parma fimm mínusstig.

Parma ákvað að áfrýja dómnum og bar það heldur betur árangur. Mínusstigin hafa verið dregin til baka og leikbann Calaio stytt úr tveimur árum niður í sex mánuði. Hann mun því geta spilað aftur í janúar.
Athugasemdir
banner