Það fóru tveir áhugaverðir æfingalandsleikir fram um helgina þar sem Bandaríkin spiluðu við Kanada annars vegar og Mexíkó mætti Nýja-SJálandi hins vegar.
Jonathan David, eftirsóttur framherji kanadíska landsliðsins og samherji Hákonar Arnars Haraldssonar hjá Lille í Frakklandi, var allt í öllu þegar Kanada lagði Bandaríkin að velli.
David lagði fyrsta mark leiksins upp fyrir Jacob Shaffelburg er liðin mættust í Kansas City og voru gestirnir frá Kanada talsvert sterkari aðilinn.
Kanadamenn voru óheppnir að tvöfalda ekki forystuna fyrr en í seinni hálfleik, þegar David var aftur á ferðinni og í þetta sinn setti hann boltann sjálfur í netið.
Heimamenn unnu sig inn í leikinn og minnkuðu muninn með marki frá Luca de la Torre, efnilegum miðjumanni Real Betis. Þeir fengu færi til að jafna en tókst ekki og urðu lokatölur því 1-2.
Orbelin Pineda, leikmaður AEK í Grikklandi, skoraði þá og lagði upp í þægilegum sigri Mexíkó gegn Nýsjálendingum alveg eins og Luis Romo, leikmaður Cruz Azul í heimalandinu, gerði í síðari hálfleik.
Lokatölur urðu 3-0 fyrir Mexíkó þar sem Chris Wood, framherja Nottingham Forest, tókst ekki að skora fyrir Nýja-Sjáland áður en honum var skipt af velli.
Bandaríkin 1 - 2 Kanada
0-1 Jacob Shaffelburg ('17)
0-2 Jonathan David ('58)
1-2 Luca de la Torre ('66)
Mexíkó 3 - 0 Nýja-Sjáland
1-0 Orbelin Pineda ('5)
2-0 Huerta Valera ('53)
3-0 Luis Romo ('57)
Athugasemdir