Franska félagið Marseille er sterklega orðað við miðjumanninn Paul Pogba þessa dagana sem er að semja við Juventus um starfslok til að geta skipt um félag í janúar.
Pogba hefur verið frá keppni síðastliðin tímabil fyrst vegna meiðsla og síðan vegna langs leikbanns sem hann fékk fyrir að falla á lyfjaprófi.
Marseille er félag sem segist vera reiðubúið til að gefa leikmönnum sem hafa gert eitthvað af sér annað tækifæri og eru þónokkrir svoleiðis menn í leikmannahópi félagsins sem stendur.
Það vakti athygli þegar Mason Greenwood samdi við Marseille í sumar en það eru fleiri fyrrum eða meintir afbrotamenn innan raða félagsins.
Þar má nefna sóknarleikmanninn unga Elye Wahi sem var, fyrir sex árum síðan, rekinn úr framhaldsskóla fyrir að þvinga þrjá samnemendur sína til að afklæðast og fróa sér fyrir framan sig inni á klósettinu í skólanum. Þar var hann að hefna sín eftir að skólafélagarnir gerðu grín að honum fyrir að eiga látinn föður.
Fyrir þremur árum síðan, þegar Wahi var 18 ára gamall, lagði 22 ára kona fram ákæru gegn honum fyrir að hafa kýlt sig í nefið á skemmtistað en málið var að lokum látið falla niður.
Amine Harit, landsliðsmaður Marokkó, hefur verið hjá Marseille síðustu þrjú ár en hann keyrði á og drap gangandi vegfarenda í heimalandi sínu í júní 2018.
Harit var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Marokkó og fékk 780 evrur (um 115 þúsund krónur) í sekt, þrátt fyrir að hafa verið að keyra alltof hratt.
Þó að ekki sé hægt að bera saman glæpina sem þessir fjórir fótboltamenn hafa, eða hafa ekki, framið þá virðast Marseille og Roberto De Zerbi ekki kveinka sér við að gefa mönnum annað tækifæri.
Athugasemdir