fös 09. nóvember 2018 09:00
Magnús Már Einarsson
Aron um landsliðið: Búið að vera skrýtið að vera utan hóps
Aron Einar snýr aftur í landsliðið.
Aron Einar snýr aftur í landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, tilkynnir klukkan 13:15 í dag landsliðshópinn fyrir komandi leiki gegn Belgíu og Katar en hægt verður að fylgjast með fréttamannafundi hans hér á Fótbolta.net.

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, snýr aftur í hópinn eftir að hafa ekkert spilað með landsliðinu síðan á HM í sumar. Aron hefur verið meiddur í síðustu landsliðsverkefnum.

„Það er virkilega gaman að vera kominn aftur inn á völlinn fyrir næsta landsliðsverkefni. Þetta verður spennandi verkefni gegn Belgíu og síðan er æfingaleikur gegn Katar sem ég reikna ekki með að vera mikið með í. Það er gott að vera kominn til baka, geta gefið af sér innan hópsins og komið með mína reynslu inn í þetta," sagði Aron við Fótbolta.net.

„Það er búið að vera skrýtið að vera utan hóps. Þegar ég hef verið meiddur hef ég mætt á svæðið og verið í kringum hópinn fyrir utan síðustu tvö skipti. Það hefur verið erfitt að vera í fjarlægð og geta ekki haft nein áhrif. Það var erfiðara en ég hélt að sjá strákana ströggla í fyrsta landsliðsverkefninu."

Hlakkar til að hitta Hamren
Erik Hamren tók við íslenska landsliðinu í sumar og Aron er spenntur að hitta hann og kynnast hans hugmyndum.

„Ég er búinn að tala nokkrum sinnum við hann í síma. Hann er einlægur og vill vel. Hann hefur mikinn áhuga á okkur og hringir oft. Hann vill hafa gott samband við leikmennina. Ég hef ekki hitt hann persónulega, en það sem strákarnir tala um er virkilega jákvætt. Ég hlakka til að setjast niður og heyra hugmyndirnar sem hann hefur, sérstaklega fyrir undankeppni EM," sagði Aron að lokum.

Sjá einnig:
Aron Einar: Eins og að vera hjá sálfræðingi
Aron: Miklar tilfinningar í spilinu gegn Leicester
Athugasemdir
banner
banner
banner