sun 09. desember 2018 21:52
Magnús Már Einarsson
Óttuðust að flugvél enska landsliðsins myndi hrapa
Rio Ferdinand í leik með enska landsliðinu á sínum tíma.
Rio Ferdinand í leik með enska landsliðinu á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
Rio Ferdinand, fyrrum varnarmaður enska landsliðsins, hefur greint frá vandræðum sem liðið lenti í á leið heim frá HM í Þýskalandi árið 2006.

Mikil ókyrrð var í fluginu á leiðinni heim, svo mikil að leikmenn enska landsliðsins óttuðust að flugvélin myndi hrapa til jarðar.

„Við vorum slegnir út gegn Portúgal í 8-liða úrslitum og áttum síðan versta flug sem hægt er að ímynda sér," sagði Ferdinand.

„Við lentum í skelfilegu veðri og allir héldu að við myndum hrapa. Við vorum öll grátandi. Ég sat nálægt Wayne Rooney, Steven Gerrard og konunum þeirra og allir voru öskrandi. Þetta var ótrúleg ókyrrð."

„Þetta var brjálæði og fólk og farangur voru úti um allt. Enginn vissi hvað var í gangi. Ég hugsaði 'þá er þetta búið' sérstaklega þegar ég horfði á starfsfólkið í fluginu."

„Þú getur séð á svipnum þeirra hversu alvarlegt þetta er og þegar ég hofði á þau þá voru þau í sætunum að hugsa 'f***, við erum í vandræðum. Ég er vanalega frekar rólegur í flugi en þegar ég horfði á þau þá varð ég almennilega hræddur."

Athugasemdir
banner
banner