banner
   sun 10. janúar 2021 22:50
Ívan Guðjón Baldursson
Real Madrid veðurtepptir - Undanúrslitaleikur á fimmtudaginn
Mynd: Getty Images
Real Madrid á að spila við Athletic Bilbao í undanúrslitum spænska Ofurbikarsins en leikmannahópurinn er veðurtepptur í Pamplona þessa stundina.

Real spilar við Bilbao í Malaga á fimmtudaginn en liðið gerði markalaust jafntefli við Osasuna í spænsku deildinni um helgina. Leikmenn hafa ekki getað komist frá Pamplona eftir leikinn við Osasuna og hafa þurft að fresta undirbúningnum fyrir undanúrslitaleikinn mikilvæga.

Zinedine Zidane og lærisveinar hans voru fastir í flugvél í fimm klukkustundir á leið sinni til Pamplona á föstudaginn en það ætti að vera aftur fært á morgun, mánudag. Stormurinn Filomena ríður yfir Spán þessa dagana og hefur tekið að snjóa í hinum furðulegustu héruðum.

Knattspyrnuyfirvöld á Spáni íhuguðu að fresta leik Real Madrid gegn Osasuna vegna veðuraðstæðna en að lokum var ákveðið að spila.

Real ætlaði að koma sér frá Pamplona og halda til Malaga í morgun en ákveðið var að fresta ferðalaginu til morguns, ef veður leyfir.

Sigurvegari undanúrslitaleiksins mætir annað hvort Barcelona eða Real Sociedad í úrslitaleik í Sevilla á sunnudaginn. Real hefur titil að verja eftir að hafa sigrað Atletico Madrid í úrslitaleik Ofurbikarsins í janúar í fyrra.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner