banner
   lau 10. apríl 2021 21:29
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Örfáum mínútum frá fyrsta tapinu í meira en tvö ár
Úr leik Íslands og Svíþjóðar á síðasta ári. Sá leikur endaði 1-1.
Úr leik Íslands og Svíþjóðar á síðasta ári. Sá leikur endaði 1-1.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svíþjóð komst mjög nálægt því að eyðileggja rúmlega tveggja ára taplausa hrinu hjá Bandaríkjunum þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í dag.

Lina Hurtig kom Svíum yfir undir lok fyrri hálfleiks og var staðan 1-0 í hálfleik. Það virtist stefna í sigur Svía, en þegar lítið var eftir fékk bandaríska liðið vítaspyrnu sem Megan Rapinoe skoraði úr.

Lokatölur 1-1 en Bandaríkin hafa núna ekki tapað í 38 leikjum í röð. Síðasta tap liðsins kom í janúar 2019 gegn Frakklandi. Jafnteflið í kvöld var fyrsti leikurinn sem liðinu tekst ekki að vinna undir stjórn þjálfarans Vlatko Andonovski. Liðið hafði unnið alla 16 leikina undir hans stjórn, fyrir leikinn í kvöld.

Heimsmeistararnir eru með ótrúlega sterkt lið en Svíar eru líka með mjög gott lið. Andonovski segir að þetta sé gott verkefni fyrir Bandaríkin en liðið mætir Frakklandi - sem þær töpuðu gegn 2019 - næstkomandi þriðjudag.

„Þetta er mjög gott fyrir okkur. Við komum hingað til að spila gegn góðum liðum, skipulögðum liðum sem spila með mismunandi taktík. Við getum lært af þessum leikjum og bætt okkur," sagði Andonovski eftir jafnteflið í kvöld.

Íslenska kvennalandsliðið var að spila í dag og tapaði naumlega fyrir Ítalíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner