lau 10. apríl 2021 15:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sænska úrvalsdeildin hafin - Jafnt í Íslendingaslag í Danmörku
Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úrvalsdeild karla í Svíþjóð byrjaði að rúlla aftur í dag og var opnunarleikurinn á milli Malmö og Hammarby.

Varnarmaðurinn Jón Guðni Fjóluson spilaði þar sinn fyrsta leik með Hammarby en því miður tókst hans mönnum ekki að fá neitt út úr leiknum, það er að segja engin stig.

Hammarby tók forystuna á 20. mínútu en Malmö var komið 2-1 yfir 20 mínútum síðar. Staðan var hins vegar 2-2 í hálfleik; Hammarby jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Staðan var 2-2 nánast allan seinni hálfleikinn, en Malmö skoraði sigurmarkið í lokin. Lokatölur 3-2 í þessum fyrsta leik sænsku úrvalsdeildarinnar.

Jón Guðni, sem er 32 ára, spilaði allan leikinn fyrir Hammarby en hann kom til félagsins frá Brann í Noregi fyrir þetta tímabil.

Íslendingaslagur í dönsku 1. deildinni
Það var Íslendingaslagur í dönsku 1. deildinni þegar Esbjerg tók á móti Silkeborg.

Andri Rúnar Bjarnason og Kjartan Henry Finnbogason léku ekki með Esbjerg í leiknum en Patrik Sigurður Gunnarsson og Stefán Teitur Þórðarson léku með Silkeborg. Patrik hafði ekki fengið á sig mark í fjórum leikjum í röð fyrir leikinn í dag, en hann fékk á sig eitt mark í 1-1 jafntefli í þessum leik.

Silkeborg er í öðru sæti og Esbjerg er í þriðja sæti. Það munar einu stigi á liðunum. Tvö efstu lið deildarinnar fara beint upp. Ólafur Kristjánsson er þjálfari Esbjerg.

Fredericia tapaði 4-1 fyrir toppliði Viborg. Elías Rafn Ólafsson er markvörður Fredericia sem er í fimmta sæti deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner