banner
   sun 10. maí 2020 14:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Vísir 
Atli Viðar með kenningu um að Óli Jó sé í brúnni frekar en Rúnar
Rúnar Páll Sigmundsson og Ólafur Jóhannesson þjálfa Stjörnuna saman.
Rúnar Páll Sigmundsson og Ólafur Jóhannesson þjálfa Stjörnuna saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er heldur betur ljóst að það verður mjög spennandi að fylgjast með nýju þjálfarateymi Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla í sumar.

Ólafur Jóhannesson var í vetur ráðinn sem þjálfari Stjörnunnar með Rúnari Páli Sigmundssyni sem var þar fyrir. Fáheyrt að tveir jafn reyndir þjálfarar og þeir tveir eru vinni saman.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um það hvaða þjálfari muni taka lokaákvarðanir, en Ólafur og Rúnar hafa ávallt talað um það að þeir muni vinna mjög náið saman og taka ákvarðanir saman. Rætt var um þetta spennandi þjálfarateymi í Sportið í Kvöld á Stöð 2 Sport í síðustu viku.

Atli Viðar Björnsson, sem lék undir stjórn Óla Jó hjá FH, er mjög spenntur fyrir þessu eins og margir aðrir. Hann er með ákveðna kenningu.

„Mín kenning er sú að Rúnar - það er talið að hann hafi reynt að fá Heimi Guðjóns með sér fyrir tveimur árum - sé ómeðvitað að bakka aðeins og að Óli sé í rauninni sem sé í brúnni, taki stóru ákvarðanirnar og axli ábyrgð. Ég er rosalega spenntur," sagði Atli Viðar. „Fyrst að frumkvæðið kemur frá Rúnari þá sé ég þetta svona."

Þorkell Máni Pétursson er ekki alveg sammála. „Rúnar Páll er alveg eins og ég, við elskum okkar félag, Stjörnuna í Garðabæ. Rúnar er ekki á leiðinni burt, hann er að hugsa um hvað er best fyrir liðið. Niðurstaðan er sú að það er best að fá Óla Jó inn. Rúnar er alveg tilbúinn að vera minna í sviðsljósinu til að ná árangri fyrir sitt félag. Hann er fyrst og síðast stuðningsmaður Stjörnunnar."

„Ég held að hann sé ekki á leiðinni burt eða að stíga til baka eitt né neitt," sagði Máni.

Innslagið má sjá á vefsíðu Vísis eða hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner