sun 10. júní 2018 17:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Romero á þeirri skoðun að hann hefði getað spilað á HM
Hver verður í markinu gegn Íslandi?
Romero á 94 landsleiki fyrir Argentínu.
Romero á 94 landsleiki fyrir Argentínu.
Mynd: Getty Images
Romero ætlar að vera áfram hjá Manchester United.
Romero ætlar að vera áfram hjá Manchester United.
Mynd: Getty Images
Sergio Romero, markvörður Manchester United og aðalmarkvörður argentíska landsliðsins, verður ekki með á HM. Hann meiddist í undirbúningnum og var kippt út úr hópnum, en í nýlegu viðtali við TyC Sports kveðst hann klár í slaginn.

„Ég talaði við Jorge (Sampaoli, þjálfara Argentínu) og útskýrði fyrir honum stöðuna. Ég sagði við hann að það væri ekkert brotið og að það myndi taka mig 10 daga að jafna mig," segir Romero.

„Tímaramminn hjá Sampaoli og þjálfaraliðinu er öðruvísi. Þeir vildu hafa einhvern sem gæti verið með þeim á hverjum degi og ég var tekinn úr hópnum fjórum tímum síðar."

„Ferill minn með landsliðinu er ekki búinn, ég er að vinna í því að snúa aftur," sagði Romero.

Romero, sem er 32 ára, hefur leikið 94 landsleiki fyrir Argentínu. Búist var við því að hann yrði aðalmarkvörður Argentínu á HM en nú er gert ráð fyrir því að annað hvort Willy Caballero eða Franco Armani fái sénsinn á milli stanganna.

Argentína mætir Íslandi í fyrsta leik sínum á HM á næstkomandi laugardag í Moskvu.

Ætlar að vera áfram hjá Manchester United
Romero gegnir hlutverki varamarkvarðar Manchester United og hefur gert það síðustu ár.

Romero er með samning við United til 2021 og hann er ekki að hugsa um að yfirgefa félagið. „Ég verð áfram hjá Manchester United," segir hann.

„(Jose) Mourinho lagði mikið í því að endursemja við mig og ég get ekki farið frá honum núna."

„Ef United vill selja mig, ef þeir fá tilboð sem þeir vilja samþykkja, þá munu þeir selja mig. En ég held að það sé ekki að fara að gerast."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner