Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 10. júlí 2018 21:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi-kvenna: Vítaspyrna réði úrslitum í stórleik í Kópavogi
FH með kærkominn sigur
Andrea skoraði af vítapunktinum.
Andrea skoraði af vítapunktinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH vann mjög mikilvægan sigur á meðan Valur tapaði.
FH vann mjög mikilvægan sigur á meðan Valur tapaði.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Breiðablik verður á toppnum í Pepsi-deild kvenna þegar fyrri hluta mótsins er lokið. Blikar sigruðu Val í kvöld og tóku toppsætið af Þór/KA. Akureyringar komust á toppinn fyrr í kvöld en stoppuðu stutt.

Bæði lið áttu sínar rispur þegar Breiðablik og Valur mættust í stórleik á Kópavogsvelli. Hvorugt liðið var spennt fyrir jafntefli en það var eitt mark sem skildi liðin að, vítaspyrnumark.

Þegar stundarfjórðungur var eftir var dæmd vítaspyrna á Val, á Thelmu Björk Einarsdóttur - einn besta leikmann Pepsi-deildarinnar í sumar. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir fór á punktinn fyrir Blika og skoraði af öryggi.

Valskonur fengu tækifæri til að jafna en allt kom fyrir ekki og lokatölur 1-0 í Kópavogi í þessum stórleik.

Í Hafnarfirði var það FH sem stóð uppi sem sigurvegari í leik gegn Grindavík. Þar var einnig aðeins eitt mark skorað og það gerði Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir, stelpa fædd 2001, fyrir FH þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af leiknum.

Geggjaður sigur fyrir FH-inga.

Breiðablik 1 - 0 Valur
1-0 Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir ('76 , víti)
Lestu nánar um leikinn

FH 1 - 0 Grindavík
1-0 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('2 )
Lestu nánar um leikinn

Hvað þýða þessi úrslit?
Breiðablik er á toppnum með 24 stig, einu stigi meira en Þór/KA. Valur er í þriðja sæti með 20 stig og þar næst á eftir kemur Stjarnan með 16 stig og ÍBV með 11 stig.

FH-ingar eru komnir af botninum, eru með sex stig í níunda sæti. Grindavík er í sjötta sæti með níu stig.

Botnbaráttan galopnaðist með þessum sigri FH í kvöld og getur opnast enn frekar ef KR nær í góð úrslit á morgun gegn HK/Víkingi.
Athugasemdir
banner
banner