fös 10. ágúst 2018 15:04
Magnús Már Einarsson
Elías Már á leið í hollensku úrvalsdeildina
Elías Már Ómarsson.
Elías Már Ómarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Már Ómarsson, framherji IFK Gautaborg, er á leið til Excelsior í Hollandi en félögin hafa komist að samkomulagi um kaupverð. Elías fer nú sjálfur til Hollands í læknisskoðun og til að skrifa undir hjá Excelsior.

Gautaborg greindi frá því á dögunum að Elías væri til sölu og nokkur félög sýndu honum áhuga í kjölfarið.

„Það var áhugi frá nokkrum öðrum löndum, þar á meðal Ungverjalandi og Rússlandi," sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Elísar, við Fótbolta.net í dag.

„Það var komið tilboð til Gautaborgar frá Rússlandi en við töldum að fótboltalega væri Excelsior betra skref. Það verður að viðurkennast að kjörin í Rússlandi voru mörgum sinnum betri."

Elías er markahæsti leikmaður Gautaborgar á tímabilinu með átta mörk í einungis tólf leikjum en hann hefur ekki alltaf fengið tækifærið í liðinu.

Hinn 23 ára gamli Elías ólst upp hjá Keflavík en hann lék með Valerenga áður en Gautaborg fékk hann í sínar raðir fyrir tveimur árum.

Excelsior hefur leik í hollensku úrvalsdeildinni um helgina en U21 árs landsliðsmaðurinn Mikael Anderson gekk til liðs við félagið í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner