banner
   mán 10. ágúst 2020 12:18
Elvar Geir Magnússon
FH hefur sólarhring til að fá heimild til að spila á Íslandi
Valdimar Svavarsson, formaður FH.
Valdimar Svavarsson, formaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH hefur sólarhring til að svara UEFA um hvort komandi Evrópuleikur liðsins gegn Dunajska Streda frá Slóvakíu geti farið fram hér á landi. Dregið var í morgun og fékk FH heimaleik 27. ágúst.

Fótboltaleikir eru ekki leyfðir hér á Íslandi sem stendur og því ekki víst hvort leikurinn geti farið fram í Kaplakrika. FH er í sambandi við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, íþróttamálaráðherra, um að fá heimild til að spila leikinn á Íslandi.

„Við eigum fund með ráðherra, KSÍ og fleirum núna klukkan 13. Við þurfum bara setja allt í gang núna til að ryðja öllum hindrunum úr vegi. Við viljum leika á okkar heimavelli og þurfum að fá ígildi undanþágu eða skilning á því að þetta sé gert með þessum hætti," segir Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH.

„Þetta er það sem við erum að vinna í og þurfum að fá svar við sem allra fyrst."

Leikið á hlutlausum velli?
En ef allt fer á versta veg og FH þarf að gefa heimaleikinn frá sér?

„Þetta er okkar heimaleikur svo við hefðum val um hvar sá leikur væri. Við erum að skoða möguleika í því sem plan B. Við erum að skoða Norðurlöndin eða eitthvað sem er nálægt okkur," segir Valdimar.

„Þetta er UEFA keppni, hluti af alþjóðlegu samstarfi í fótboltanum. Ef þetta væri landsleikur, yrði þá staðið í vegi fyrir honum? Ég vona að svipuð sjónarmið verði uppi. Það eru miklir hagsmunir í húfi."

Sama hvar leikurinn mun fara fram þá er ljóst að hann verður leikinn án áhorfenda.
Athugasemdir
banner
banner
banner