mán 10. september 2018 11:30
Magnús Már Einarsson
Erik Hamren: B-lið Belga gæti farið á EM
Icelandair
Erik Hamren.
Erik Hamren.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, hrósaði belgíska landsliðinu á fréttamannafundi í dag. Belgar enduðu í 3. sæti á HM í sumar en erlendur fréttamaður spurði Erik á fundinum í dag hvort hann telji að liðið sé það besta í heiminum í dag.

„Frakkland vann HM svo ég verð að segja að Frakkland sé besta lið í heimi. Belgar eru númer tvö á heimslistanum og þeir eru með mjög gott lið," sagði Erik.

„Ef þú horfir á úrslitin í síðustu tíu leikjum þá hafa þeir bara tapað einum leik og það var í undanúrslitum á HM. Þeir eru með mjög sterkt lið og ef þú horfir á hópinn þá myndi B-lið þeirra einnig geta tryggt sér sæti á EM. Þetta er mjög gott lið."

Erik var einnig spurður að því hvert markmið hans sé með íslenska landsliðið á næstunni.

„Íslenska liðinu hefur gengið mjög vel undanfarin 6-7 ár og náð í mjög góð úrslit. Ísland hefur farið í úrslitakeppnir á EM og HM. Það er áskorun að fara ennþá lengra með liðið og við viljum bæta okkur og ná ennþá lengra."

„Það hefur verið erfitt fyrir önnur lönd en Ísland að komast á þriðja stórmótið í röð. Okkar markmið er að komast á næsta EM. Það er áskorun að halda í góðu hlutina sem hafa verið og bæta aðra hluti. Stærri lönd en Ísland hafa lent í vandræðum með það. Ég er spenntur fyrir þessari áskorun."

Athugasemdir
banner
banner
banner