banner
   mán 10. september 2018 21:03
Magnús Már Einarsson
Martinez mundi vel eftir gömlum úrslitum hjá Íslandi
Icelandair
Roberto Martinez ræðir við aðstoðarmann sinn Thierry Henry á æfingu á Laugardalsvelli í kvöld.
Roberto Martinez ræðir við aðstoðarmann sinn Thierry Henry á æfingu á Laugardalsvelli í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belga, hefur ekki áhyggjur af því að sínir leikmenn séu ennþá of hátt upp í skýjunum eftir að hafa náð í brons á HM í sumar.

Belgar mæta Íslendingum í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli klukkan 18:45 á morgun. Hann segir að leikmenn Belgíu séu einbeittir fyrir Þjóðadeildinni.

Tómas Þór Þórðarson, íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport, nefndi 1-1 jafntefli Íslands við heimsmeistara Frakka árið 1998 og spurði hvernig Martinez ætlaði að halda sínum mönnum á jörðinni til að lenda ekki í því sama og Frakkar gerðu á Laugardalsvelli fyrir tuttugu árum.

„Undirbúningurinn byrjaði á fyrsta degi eftir HM. Við erum einbeittir og það er auðmýkt í liðinu hjá okkur, Við vitum að við erum að fara að spila mjög erfiðan leik á morgun," sagði Martinez.

„Frakkland er gott dæmi um hvað gerist í fótbolta ef þú gerir ekki hlutina rétt. Þá er erfitt að vinna leiki."

„Mig minnir að Frakkland hafi líka unnið heimaleik gegn Íslandi 3-2 og þeir skoruðu mjög seint í leiknum. Ísland stóð sig mjög vel þar. Þetta er það sem landsleikir gefa þér. Þú verður að vera tilbúinn í verkefnið," sagði Martinez sem var líklega að vísa í leikinn í París í undankeppni EM árið 1999 þó vináttuleikurinn í Frakklandi 2012 komi einnig til greina.

„Ég tel að leikmennirnir séu einbeittir og klárir í slaginn. Þetta er stór keppni og ég held að enginn hafi efni á að mæta með hálfum huga því það gæti kostað okkur."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner