Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 10. desember 2018 20:38
Brynjar Ingi Erluson
Íslenskur bakvörður í sænsku úrvalsdeildina - Hjálpaði liði Milos Milojevic upp
Óskar Tor Sverrisson
Óskar Tor Sverrisson
Mynd: Heimasíða Mjällby
Milos Milojevic þjálfaði Óskar hjá Mjällby en þeir ræddu oft um Ísland
Milos Milojevic þjálfaði Óskar hjá Mjällby en þeir ræddu oft um Ísland
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænska félagið BK Häcken samdi á dögunum við vinstri bakvörðinn Óskar Tor Sverrisson en hann hafði leikið fyrir Mjällby IF og staðið sig með prýði þar. Nafnið vekur sérstaklega athygli en faðir hans er íslenskur.

Óskar er 26 ára gamall og hefur æft knattspyrnu frá því hann var 8 ára gamall en hann er uppalinn í Svíþjóð. Tenging hans við Ísland er þó góð og býr systir hans á landinu. Hann á þó ekkert uppáhaldslið hér heima en fylgist vel með deildinni.

„Ég er nýorðinn 26 ára. Pabbi er frá Íslandi og mamma frá Svíþjóð og ég er fæddur og uppalinn í Svíþjóð. Systir mín flutti svo til Íslands fyrir 7 árum en ég fer því miður of sjaldan þangað en líkar alltaf jafn vel við landið þegar ég kem," sagði Óskar við Fótbolta.net.

Hann hefur getið sér gott orð í sænsku neðri deildunum þá sérstaklega í Division 1 sem á Íslandi myndi flokkast sem 2. deild karla. Óskar átti stóran þátt í að koma liði Mjällby upp í næst efstu deild á síðasta tímabili áður en samningur hans við félagið rann út.

Hann hefur leikið með félögum á borð við Landskrona BOIS, Dalkurd FF og nú síðast Mjällby og á fjölmarga leiki að baki í neðri deildunum.

Þá ákvað hann að reyna fyrir sér hjá úrvalsdeildarfélagi Häcken og tókst honum að heilla Andreas Alm, þjálfara félagsins.

„Ég hef spilað í mörg ár í Division 1 og barist fyrir því að reyna komast í Allsvenskan. Ég hef æft mikið og markvisst og alltaf vitað hvað ég vildi og núna loksins komst ég þangað. Ég hætti aldrei að trúa á möguleika mína að ná hingað."

„Ég átti mjög gott tímabil og skoraði m.a. 9 mörk sem vinstri bakvörður. Það er auðvelt að spila vel sjálfur þegar liðið sem þú spilar í er gott. Við áttum mjög gott ár og okkur tókst að vinna deildina. Við spiluðum mjög mikinn sóknarleik og vorum mikið með boltann og það hentaði mér vel,"
sagði hann ennfremur um spilamennsku Mjällby.

Spilaði undir Milos

Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings R. og Breiðabliks, er núverandi þjálfari Mjällby en hann fer fögrum orðum um serbneska þjálfarann. Þeir ræddu þá einnig oft um Ísland.

„Milos er frábær þjálfari og veit mjög mikið um fótbolta. Hann hentaði mér mjög vel og mér líkaði vel við að hafa hann sem þjálfara. Milos er markviss og setur kröfur á leikmennina og það gerir mann að betri leikmanni. Ég náði að þróast mjög mikið og spila góðan fótbolta með Milos sem þjálfara."

„Já við töluðum um Ísland og vorum mikið að bera saman Svíþjóð og Íslandi og tala um það sem maður saknar frá Íslandi,"
sagði Óskar.

Alltaf verið markmið að spila í efstu deild

Óskar segir það alltaf hafa verið markmiðið að spila í Allsvenskunni og er nú langþráður draumur að rætast. Hann telur deildina einnig vera frábært skref fyrir unga leikmenn frá Íslandi til að þróa leik sinn.

„Allsvenskan er jöfn og góð deild og það eru mörg lið sem eiga möguleika á því að vinna deildina. Það eru margir Íslendingar sem hafa gert og gera góða hluti í Allsvenskunni. Ég held að Allsvenskan er góð deild til að þróast í og margir sjá tækifæri að komast áfram þaðan. Allsvenskan er aðeins sterkari heldur en hæsta deildin á Íslandi og þess vegna getur það verið gott skref að fara frá Íslandi og byrja að spila þar."

Spenntur fyrir landsliðinu en einbeitir sér að Häcken

Óskar á möguleika á því að leika fyrir íslenska landsliðið en segir markmið sitt fyrst og fremst að standa sig í Svíþjóð. Allt annað er bónus. Mörg dæmi hafa verið nefnd til sögunnar varðandi landsliðsval en nýjasta dæmið er Andri Rúnar Bjarnason, sem skaust á stjörnuhimininn með frammistöðu sinni með Grindavík og svo Helsingsborg í Svíþjóð.

„Andri gerði mjög gott tímabíl með Helsingborg og átti það svo sannarlega skilið að fá tækifæri með Íslenska landsliðinu. Auðvitað er það draumur að fá að spila fyrir hönd íslands, en fyrst og fremst er markmiðið mitt að verða lykilmaður í Häcken. Ef það tekst getur allt gerst. Hamrén fylgist vel með Svíþjóð og það sem er að gerast, þannig ef ég geri nógu vel held ég að ég eigi möguleika," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner