Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 10. desember 2018 13:10
Magnús Már Einarsson
Telur að Heimir geti komið Al Arabi í Meistaradeild Asíu
Heimir Hallgrímsson skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í Katar.
Heimir Hallgrímsson skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ráðning Heimis Hallgrímssonar sem þjálfara Al Arabi hefur vakið gríðarlega mikla athygli í Katar. Heimir skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í Katar.

„Þessi frétt hefur verið stór á forsíðum íþróttablaða hér. Úrvalsdeildin í Katar hefur ekki verið með þekktan þjálfara úr Evrópu síðan Michael Laudrup tók við Al Rayyan í október 2016," sagði Mitch Freeley íþróttafréttamaður hjá BEIN Sports við Fótbolta.net í dag.

„Sú staðreynd að Hallgrímsson hefur unnið kraftaverk með óreynt lið íslands og komið því á EM og HM hefur vakið mesta athygli hér. Hann mun klárlega þurfa að koma sama hugarfari inn í lið Al Arabi ef það ætlar að berjast um eitthvað á þessu tímabili."

Al Arabi er í 6. sæti í deildinni í Katar, sjö stigum frá þriðja sætinu sem gefur rétt til að leika í Meistaradeildinni í Asíu. Síðari hluti tímabilsins er eftir í Katar.

„Fyrir þetta tímabil voru væntingarnar frekar litlar en núna er stefnt á að ná öflugum árangri síðari hluta tímabils. Arabi er sex stigum frá topp fjórum og ef liðið kemst á skrið á nýju ári gæti staðan breyst. Það góða fyrir Hallgrímsson er að hann fær talsverðan tíma með hópnum því það verður hlé á þessu tímabili til að landslið Katar geti komið saman."

„Þetta er áhugaverð ráðning fyrir Al Arabi og deildina. Vanalega eru þjálfarar sem tala arabísku ráðnir eða að minnsta kosti þjálfarar með talsverða reynslu úr Mið-Austurlöndum. Ef Hallgrímsson fær fjárhagslegan stuðning til að fá menn í janúar þá gæti hann klárlega ýtt liðinu upp í sæti sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Asíu," sagði Mitch.
Athugasemdir
banner
banner