Real Madrid heimsækir Atalanta í gríðarlega mikilvægum slag í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu annað kvöld og svaraði Carlo Ancelotti spurningum á fréttamannafundi fyrir leikinn.
Ancelotti var þar spurður út í ungstirnin Endrick og Arda Güler sem hefur ekki tekist að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu hjá Madrídingum.
Güler virðist vera talsvert nær því heldur en Endrick, enda er samkeppnin um byrjunarliðssæti í fremstu víglínu ótrúlega mikil.
„Endrick og Arda Güler verða ekki lánaðir út í janúar. Þeir verða áfram í Madríd," sagði Ancelotti mjög skýrt á fréttamannafundinum.
„Ég hef ekkert á móti ungum leikmönnum, ef þið skoðið þjálfaraferilinn minn þá hef ég notað mikið af ungum leikmönnum.
„Ég vel besta byrjunarliðið fyrir hvern leik og mér er alveg sama hvort leikmaður er 18 ára eða 40 ára gamall. Stundum finnst mér eins og liðið þurfi á Endrick að halda og stundum finnst mér það ekki."
Ancelotti var einnig spurður út í Frakkann öfluga Kylian Mbappé sem hefur legið undir gagnrýni frá flutningi sínum til Madríd.
„Kylian er að æfa vel, hann er stöðugt að bæta sig og aðlagast betur. Hann er búinn að vera góður í síðustu tveimur leikjum, það er mikilvægt að hjálpa honum að ná upp sama sjálfstrausti og hann var með áður."
Athugasemdir