Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   þri 10. desember 2024 12:23
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hreggviður Hermanns: Einstakt að spila fyrir uppeldisfélagið
Lengjudeildin
Mættur aftur til uppeldisfélagsins.
Mættur aftur til uppeldisfélagsins.
Mynd: Keflavík
Gunni - Gunnar Heiðar Þorvaldsson er þjálfari Njarðvíkur.
Gunni - Gunnar Heiðar Þorvaldsson er þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halli og Bói þjálfa Keflavík.
Halli og Bói þjálfa Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í fjögur tímabil hjá Njarðvík.
Var í fjögur tímabil hjá Njarðvík.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Hreggviður Hermannsson var í síðasta mánuði keyptur aftur til uppeldisfélagsins Keflavíkur frá grönnunum í Njarðvík. Hann er vinstri bakvörður sem getur spilað fleiri stöður. Hann er 24 ára og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki sumarið 2019. Hreggviður skipti yfir til Njarðvíkur fyrir tímabilið 2021 og hefur verið þar síðan. Hann skrifar undir samning við Keflavik út tímabilið 2026.

„Tilfinningin er bara geðveik, ég er fyrst og fremst Keflvíkingur og að fá að spila fyrir uppeldisfélagið sitt er einstakt dæmi. Keflavík sýndi langmesta áhugann af þeim liðum sem að Þröstur umboðsmaður heyrði og ég er nokkuð viss um að það sé best að vera þar sem áhugi er fyrir hendi. Það sem að heillaði mig svo er ekki bara menningin og það að spila fyrir heimaklúbbinn, heldur líka að vera hjá efnilegu þjálfarateymi í Halla og Bóa og svo eru þetta bara allt ágætis félagar mínir þarna í klefanum," segir Hreggviður.

Önnur félög höfðu áhuga á að fá hann á æfingar en þegar Keflavík kom að borðinu var það efst á lista.

Öðlaðist nauðsynlega reynslu
Hreggviður spilaði þrjá leiki með Keflavík sumarið 2019 áður en hann hélt til Víðis og var þar á láni seinni hluta tímabilsins 2019 og tímabilið 2020. Eftir það samdi hann við Njarðvík.

„Það var erfitt að kveðja Njarðvík. Gunni er frábær þjálfari og hafði mikla trú á mér og teymið var drullu gott, þeir og aðrir - fyrrum og núverandi- innan félagsins sem gáfu manni traustið. Ásamt því var örugglega erfiðast að fara frá strákunum í klefanum. Ég öðlaðist mjög mikla reynslu á þessum fjórum tímabilum með félaginu sem var alveg nauðsynlegt fyrir mig á þessum tíma. Mér fannst bara vera kominn tími fyrir einhverskonar breytingu þegar ég ákvað svo að fara og ég kunni virkilega að meta stuðninginn frá Gunna og Njarðvík þegar ég lét þá vita að ég vildi fara."

Hvernig kom það til að þú samdir við Njarðvík á sínum tíma?

„Þetta var smá steikt þegar ég kem 2021, ég er þá blanda af kantmanni og miðjumanni og kominn heim eftir lán frá Víði og Siggi Raggi nýtekinn við Keflavík. Ég var búinn að glíma við einhver meiðsli og var ekkert að spila á undirbúningstímabilinu. Ég hélt fyrst að ég væri að fara á láni, en ef ég man rétt þá var ég lítið í plönum Keflavík á þeim tíma og Njarðvík náði hreinum félagskiptum í gegn og ég var bara spenntur fyrir því að fá að spila."

Vonsvikinn með eigið tímabil
Hreggviður spilaði 14 deildarleiki í sumar og einn leik í bikarnum. Hann ræddi aðeins um tímabilið en Njarðvík endaði í 6. sæti Lengjudeildarinnar og var hársbreidd frá umspilinu.

„Þetta var eiginlega bara þvælu tímabil, við byrjuðum bara á einhverri sprengju og það var illa góð stemning innan félagsins. Sigurhrina sem að fáir bjuggust við en Gunni var að elda á bakvið tjöldin."

„Ég var eiginlega í basli allt undirbúningstímabilið með lærið og leiðir það inn í byrjun tímabilsins og næ eiginlega aldrei að komast í 100% stand. Markmiðið mitt fyrir tímabilið var að eiga skepnu tímabil en ég náði einhvern veginn aldrei að koma mér í gang út af meiðslunum sem síðan valda því, ásamt persónulegum ástæðum, að ég náði ekki að klára mótið. Þannig að svona heilt yfir er ég smá vonsvikinn með eigið tímabil."


Ætlar að hjálpa félaginu upp í deild þeirra bestu
Hvað langar þig að afreka hjá Keflavík?

„Fyrst og fremst að drulla þessu félagi aftur í deild þeirra bestu og mynda þessa Puma-sveitar stemningu á vellinum. Mig langar bara að sjá völlinn stappaðan og fagna inni í klefa eftir leiki. Mitt markmið er að halda mér heilum allt tímabilið og svo bara að vera skepna inn á vellinum," segir Hreggviður.
Athugasemdir
banner
banner