Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fös 11. janúar 2019 11:38
Hafliði Breiðfjörð
Sandra María óvænt ekki í landsliðinu - Sár og svekkt
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.
Mynd: Mirko Kappes
Jón Þór Hauksson nýr þjálfari kvennalandsliðsins valdi á dögunum sinn fyrsta hóp fyrir vináttulandsleik gegn Skotum 20. janúar næstkomandi og þá kom á óvart að Sandra María Jessen leikmaður Þórs/KA sem var valin besti leikmaður síðasta tímabils af leikmönnum Pepsi-deildarinnar átti ekki sæti í landsliðshópnum.

Fótbolti.net gekk á Jón Þór með þetta og fékk þau svör að hann hafi talið þann hóp sem hann valdi sterkastann í dag.

„Hún kom til greina í þennan hóp en var ekki valin að þessu sinni. Það er ekki búið að loka neinu fyrir framhaldið. Hún er frábær leikmaður og á fullt tækifæri til að koma í þennan hóp síðar eins og aðrir leikmenn," sagði Jón Þór.

Sandra María gekk í dag í raðir Bayer Leverkusen í Þýskalandi þar sem hún samdi til júní 2020 og af því tilefni er hún í viðtali á vef félagsins. Hún er meðal annars spurð út í landsliðsvalið og segist hafa verið sár og svekkt.

„Ég verð að viðurkenna að landsliðsvalið kom mér á óvart. Ég var mjög sár og svekkt og gaf mér nokkra daga í að meðtaka það og svekkja mig," sagði Sandra María í viðtali á vef Þórs.

„En það er ekkert annað í boði núna en bara gyrða sig í brók og gefa í og muna að mótlæti getur alltaf virkað jákvætt á mann. Ég sjálf hef upplifað mótlæti í gegnum ferilinn og það hefur alltaf virkað jákvætt á mig, að minnsta kosti í bæði skiptin sem ég hef slitið krossband. Það minnir mann á hversu mikils virði eitthvað er fyrir manni og maður verður bara að njóta á meðan maður er að upplifa hlutina."

Í viðtalinu kemur Sandra María víða við og segist meðal annars hafa upplifað kulnun í fótboltanum. Smelltu hér til að lesa viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner