Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 11. apríl 2019 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Laugi og Siggi Jóns lentu í lífsháska eftir sigur í Makedóníu
Guðlaugur Baldursson.
Guðlaugur Baldursson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigurður Jónsson var aðalþjálfari FH á þessum tíma.
Sigurður Jónsson var aðalþjálfari FH á þessum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Guðlaugur Baldursson er nýjasti viðmælandinn í hlaðvarpsþættinum Fimleikafélagið. Guðlaugur fer þar meðal annars yfir skemmtilega sögu frá 2002.

Guðlaugur er nýkominn aftur inn í þjálfarateymi FH, en árið 2002 var hann aðstoðarþjálfari Sigurðar Jónssonar, Sigga Jóns, hjá félaginu.

Eftir 3-1 sigur á Cement­arnica Skopje frá Makedóníu í fyrri leik liðanna í Intertoto-keppninni lentu Guðlaugur og Sigurður í miklum hremmingum.

„Í Makedóníu unnum við leikinn og vorum hrikalega ánægðir með góðan Evrópusigur. Það var sagan síðar að Makedónarnir hefðu tekið við mútum fyrir að tapa þessum leik. Ég trúi því náttúrulega engan veginn," sagði Guðlaugur.

„Eftir leikinn fórum við saman starfsliðið og fengum okkur ölkrúsir á veitingastað. Svo fara menn að tínast í burtu. Við Siggi verðum eitthvað á eftir hópnum. Þeir sem fara á undan borga fyrir sig og sína drykki."

„Svo ætlum við að gera upp okkar reikning sem átti ekki að vera mjög hár. Verðlagið var ekki hátt í Makedóníu á þessum tíma. Svo setja þeir rosalega tölu á blað fyrir okkur. Þetta voru einhverjar 30 þúsund íslenskar í dag. Við segjum við þá að þeir séu eitthvað að rugla en þeir segja að við eigum að borga."

„Sigga liggur nú hátt rómur eins og vanalega og sagði þeim að þetta væri ekki boðlegt. Þá umkringja þeir hann og sýna honum í buxnastrenginn hjá sér þar sem þeir eru vopnaðir. Við hrökkvum til baka og ætluðum að borga. Við förum af stað og ég rétti þeim kortið mitt. Þeir horfðu á mig eins og ég væri frá Íslandi. Þeir tóku ekki við kortum, vildu bara seðla."

Þá var ferðinni heitið í hraðbanka. „Ég hef séð nokkar Lödur en þessi var sennilega sú elsta. Þeir hjálpuðu mér að setjast í aftursætið og þeir settust tveir sem voru ekki bara búnir að borða skyr alla sína ævi sitthvorum megin við mig, og tveir frammí. Þarna var ég ofboðslega hræddur."

„Þeir fara með mig á stað og rúnta með mig. Ég var ekki kunnugur staðháttum þarna. Þeir fóru með mig á dimman stað og þá hugsaði ég, 'þetta er að klárast, þetta verður mitt síðasta'. Þeir stoppuðu fyrir framan hraðbanka. Hvort sem það var vegna þess að ég var töluvert skjálfhentur og stressaður, þá virkaði kortið ekki. Þeir spyrja mig hvort ég væri að ljúga þessu. Ég neitaði. Ég hélt aftur að þetta væri mitt síðasta."

„Ég hef verið trúverðugur og þeir gáfu mér annan möguleika. Við fundum annan hraðbanka og þar náði ég þessum pening. Það var allt annað yfirbragð yfir mínum mönnum eftir það, en ég var svipað hræddur ennþá."

„Svo komum við á staðinn aftur og þá bjóða þeir Sigga drykk og allt í góðum gír. Við áttuðum okkur fljótt á því að þeir voru búnir að ná því fram sem þeir ætluðu að ná; þessum peningum. Við hentum okkur út og drifum okkur upp á hótel."

Daginn eftir hugsuðu Guðlaugur og Siggi um það hvort þeir ættu ekki að reyna að ná peningnum aftur. Valdas Trakys, Lithái sem þá spilaði með FH, sagði þeim að láta kyrrt liggja, þeir væru heppnir að vera enn á lífi.

„Þetta er skemmtilegt minning. Þetta fór allt saman vel," sagði Guðlaugur.

FH tapaði seinni leiknum 2-1 en komst áfram í næstu umferð þrátt fyrir það. Í næstu umferð var Villarreal frá Spáni aðeins of stór biti.

Viðtalið við Guðlaug má hlusta á hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner