Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 11. maí 2020 15:37
Elvar Geir Magnússon
Stöð 2 Sport eykur umfjöllun um Pepsi Max - Óvissa með útsendingar frá 1. deild
Eiríkur Stefán Ásgeirsson hjá Stöð 2 Sport.
Eiríkur Stefán Ásgeirsson hjá Stöð 2 Sport.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður íþrótta hjá Sýn, segir að Stöð 2 Sport muni auka umfjöllun sína um Pepsi Max-deild karla í sumar.

Fótbolti.net sendi nokkrar spurningar á Eirík en bráðlega verður tilkynnt hvaða teymi verður í Pepsi Max-markaþættinum.

„Við munum kynna teymið í þáttunum mjög fljótlega. Auk þess verður tilkynnt hvernig þáttagerð um Pepsi Max deild karla verður háttað en við munum auka umfjöllun okkar um deildina í sumar," segir Eiríkur en stefnt er að því að hefja upphitun fyrir tímabilið í næstu viku.

Sem fyrr verða 2-3 leikir í hverri umferð sýndir beint en í fyrstu tveimur umferðunum þetta tímabilið verða allir leikirnir í beinni.

Pepsi Max-deild kvenna verður áfram á stöðinni og að minnsta kosti einn leikur í hverri umferð sýndur beint.

„Það verða áfram reglulegir umfjöllunarþættir um Pepsi Max deild kvenna. Við viljum auka umfjöllun um kvennaknattspyrnu og bindum miklar vonir við beinar útsendingar frá sænsku úrvalsdeildinni."

Mjólkurbikar karla og kvenna verður áfram á Stöð 2 Sport en sýnt verður frá fyrstu umferðunum. Það hefur ekki verið gert áður. Leikur Grindavíkur og ÍBV 13. júní í Mjólkurbikar karla verður í beinni.

Óvissa ríkir með útsendingar úr 1. deild karla. Ekki er kominn styrktaraðili á deildina og óvíst hvernig sjónvarpsmálin í deildinni verða.

„Við höfum átt frábært samstarf við KSÍ og ÍTF um verkefnið sem tengist Stöð 2 Sport Ísland og viðtökur hafa verið mjög góðar. Þessu fögnum við mjög enda stendur okkar hugur til þess að stækka, bæta og auka umfjöllun okkar um íslenskar íþróttir," segir Eiríkur að lokum en hér að neðan má sjá nánari upplýsingar um verkefnið.
Athugasemdir
banner
banner