Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 11. júlí 2018 15:38
Elvar Geir Magnússon
Jón Þór: Krefjandi verkefni gegn sóknarþenkjandi Eistum
Það eru forsendur til þess að einvígi Stjörnunnar og Nomme Kalju verði skemmtilegt.
Það eru forsendur til þess að einvígi Stjörnunnar og Nomme Kalju verði skemmtilegt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór er aðstoðarmaður Rúnars Páls Sigmundssonar.
Jón Þór er aðstoðarmaður Rúnars Páls Sigmundssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Klukkan 20 annað kvöld, fimmtudagskvöld, leikur Stjarnan fyrri leik sinn gegn Nomme Kalju í forkeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn fer fram í Garðabænum en einnig verður hægt að sjá hann í beinni netútsendingu á SportTv.

Nomme Kalju er á toppi eistnesku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið hefur raðað inn mörkum, er með markatöluna 68-21 eftir átján leiki. Jón Þór Hauksson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, segir að sóknarleikur sé svo sannarlega aðalsmerki liðsins.

„Það hefur gengið ágætlega að afla upplýsinga um þetta lið. Við höfum náð að horfa á leiki gegn InStat sem hefur nýst okkur vel. Við höfum verið að horfa á deildarleiki og Evrópuleiki síðustu ári," segir Jón Þór.

„Við metum þetta 50/50 viðureign. Þetta eru þannig lagað séð ekkert mjög ólík lið. Það er alltaf erfitt að meta styrkleikann á deild eins og þessari eistnesku. Deildin virðist þrískipt að gæðum. Þetta lið er í toppbaráttunni en neðsti þriðjungur deildarinnar virðist mjög slakur. Leikirnir gegn liðunum þar hafa verið að vinnast mjög stórt."

„Nomme Kalju hefur mikla reynslu af Evrópukeppni og síðustu fimm ár alltaf komst í gegnum fyrstu umferð forkeppninnar. Þeir hafa lagt sterk lið eins og HJK frá Finnlandi og Maccabi Haifa frá Ísrael. Við eigum von á hörkuleik."

Hilmar Árni gegn Liliu
Stjarnan hefur skorað mest allra liða í Pepsi-deildinni og er í efsta sætinu sem stendur. Ekki er ólíklegt að það verði boðið upp á hágæða skemmtun í þessu einvígi gegn Nomme Kalju.

„Eistarnir eru mjög beinskeyttir í sínum sóknarleik. Þeir voru að spila toppleik gegn Flora Tallinn um daginn og hann endaði 3-3. Það er yfirleitt mörg mörk í leikjunum þeirra. Þeir eru með mjög öflugan Brassa (kallaður Liliu) sem er afturliggjandi sóknarleikmaður og er langmarkahæstur í deildinni. Hann er góður leikmaður og mikill markaskorari. Þetta er sóknarþenkjandi lið sem fer hátt upp með bakverðina," segir Jón Þór.

Umræddur Brasilíumaður, hinn 28 ára Liliu, hefur skorað 22 mörk í 18 leikjum í eistnesku deildinni. Það verður fróðlegt að bera hann saman við Hilmar Árna Halldórsson sem er kominn með 13 mörk í 12 leikjum í Pepsi-deildinni.

„Það eru forsendur til þess að þetta verði skemmtilegt einvígi. Allir í okkar hóp eru heilir og það hefur gengið vel upp á síðkastið. Liðsandinn og karakterinn í liðinu eru upp á að besta. Það er virkilega góð stemning í liðinu. Það er mikil reynsla í okkar liði, líka í Evrópuleikjum. Menn eru meðvitaðir um að þetta verði krefjandi verkefni og eru tilbúnir," segir Jón Þór Hauksson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner