Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 11. ágúst 2019 14:53
Brynjar Ingi Erluson
England: Aubameyang sá um Newcastle - VAR hafði áhrif í Leicester
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar marki sínu í dag
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar marki sínu í dag
Mynd: Getty Images
Leicester City og Wolves mættust í dag
Leicester City og Wolves mættust í dag
Mynd: Getty Images
Arsenal lagði Newcastle United á St. James's Park í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag með sigurmarki frá Pierre-Emerick Aubameyang á meðan Leicester og Wolves gerðu markalaust jafntefli.

Byrjunarlið Arsenal vakti mikla athygli en menn á borð við Nicolas Pepe, David Luiz og Dani Ceballos voru á bekknum og Kieran Tierney var ekki í hóp.

Mesut Özil og Sead Kolasinac voru auðvitað ekki í hóp því öryggi þeirra hefur verið ógnað síðustu vikur en það voru heimamenn í Newcastle sem byrjuðu leikinn betur.

Joelinton átti skalla rétt framhjá marki eftir fyrirgjöf frá Matt Ritchie og nokkrum mínútum síðar átti Jonjo Shelvey skot í stöng. Miguel Almiron vildi fá vítaspyrnu á 20. mínútu en hann lét sig þá falla í teignum. Honum tókst ekki að fífla Martin Atkinson, dómara, sem spjaldaði hann fyrir leikaraskap.

Pierre-Emerick Aubameyang átti fyrsta færi Arsenal á markið en hann fékk boltann vinstra megin í teignum en Martin Dubravka sá við honum.

Í síðari hálfleik tók Arsenal betur við sér en Aubameyang skoraði á 58. mínútu eftir laglega sendingu frá Ainsley Maitland-Niles. Jetro Willems var ný kominn inná sem varamaður vinstra megin, það kom sending að honum en hann var of hægur úr því varð hröð sókn sem Aubameyang afgreiddi snyrtilega yfir Dubravka í markinu.

Ceballos fékk síðasta hálftímann en hann kom inn fyrir Joe Willock á meðan Nicolas Pepe kom inn fyrir Reiss Nelson þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Lítið annað markvert gerðist í leiknum og 1-0 sigur Arsenal staðreynd. Margir líflegir punktar hjá Newcastle. Joelinton virkar sem frábær nía og Allan Saint-Maximin, sem kom frá Nice í sumar, gæti orðið frábær kaup þegar líður á mótið.

Leikur Leicester og Wolves var afar rólegur til að byrja með og gerðist lítið í fyrri hálfleik en það var aðeins meira fjör í þeim síðari. Leander Dendoncker kom knettinum í netið í byrjun síðari hálfleiks eftir hornspyrnu Joao Moutinho en atvikið var skoðað í VAR-herberginu og niðurstaðan var sú að Willy Boly handlék knöttinn í aðdragandanum.



Liðin náðu lítið að skapa sér það sem eftir var af síðari hálfleiknum og niðurstaðan 0-0 jafntefli.

Úrslit og markaskorarar:

Leicester City 0 - 0 Wolves

Newcastle 0 - 1 Arsenal
0-1 Pierre Emerick Aubameyang ('58 )
Athugasemdir
banner
banner
banner