Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 11. nóvember 2018 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Higuain: Við erum manneskjur með tilfinningar
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gonzalo Higuain er búinn að biðjast afsökunar fyrir rauða spjaldið sem hann fékk er Milan tapaði fyrir Juventus í síðasta leik helgarinnar í ítalska boltanum.

Higuain átti skelfilegt kvöld þar sem hann klúðraði vítaspyrnu í fyrri hálfleik gegn fyrrverandi liðsfélögum sínum. Hann var seldur frá Juve til Milan í sumar, til að gera pláss fyrir Cristiano Ronaldo og Leonardo Bonucci.

„Ég vil biðja liðsfélagana, þjálfarann, stuðningsmennina og dómarann afsökunar. Mér finnst samt að dómarar ættu að sýna tilfinningum í hita leiksins meiri skilning," sagði Higuain.

„Ég brást illa við og tek fulla ábyrgð. Það eru miklar tilfinningar í spilinu þegar maður spilar við sína fyrrverandi liðsfélaga. Á þessum tímapunkti vorum við að tapa. Við erum ekki vélmenni, við erum manneskjur með tilfinningar.

„Ég hafði rangt fyrir mér, ég biðst afsökunar og vona að þetta komi ekki fyrir aftur. Ég er mjög tilfinningarík manneskja og á stundum erfitt með að hemja mig. Það er alltaf hægt að sjá á mér í hvernig skapi ég er."


Leikmenn Juve komu Higuain til varnar að leikslokum og sögðust vona að hann fengi ekki langt leikbann. Higuain er þeim þakklátur og bætti því við að hann hafi ekki viljað fara frá félaginu í sumar.

„Ég á í góðum samskiptum við strákana í Juve og ég er ánægður að þeir hafi haldið aftur af mér þegar ég missti stjórn á skapinu. Ég held að viðbrögð þeirra sýni að ég var elskaður hjá félaginu.

„Allir vita hversu mikið ég hef gefið Juventus. Ákvörðunin um að yfirgefa félagið var ekki mín. Eftir það sýndi Milan mér mikinn áhuga svo ég valdi að koma hingað."

Athugasemdir
banner