Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 11. nóvember 2018 22:01
Ívan Guðjón Baldursson
Suður-Ameríka: Jafnt í fyrri úrslitaleiknum hjá Boca og River
Mynd: Getty Images
Boca Juniors 2 - 2 River Plate
1-0 Ramon Abila ('34)
1-1 Lucas Pratto ('35)
2-1 Dario Benedetto ('45)
2-2 Carlos Izquierdoz ('61, sjálfsmark)

Erkifjendurnir Boca Juniors og River Plate eigast við í úrslitaleik Copa Libertadores, sem er einskonar Meistaradeild félagsliða í Suður-Ameríku.

Boca og River eiga mjög ríka sögu að baki bæði í argentínska boltanum og Copa Libertadores en þetta er í fyrsta sinn sem liðin mætast í úrslitaleik keppninnar.

Bæði lið eru staðsett í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, þar sem fótbolti er lífsstíll fyrir marga.

Heimamenn í Boca komust yfir í fyrri hálfleik þegar Ramon Abila fylgdi eigin skoti eftir með marki. Franco Armani í marki River átti eflaust að gera betur, en skotin komu bæði úr þröngu færi og voru í nærhornið.

Fagnaðarlæti heimamanna lifðu þó ekki lengi því það tók Lucas Pratto aðeins sjö sekúndur að jafna leikinn. Hann fékk stungusendingu innfyrir vörnina beint eftir miðjuna og kláraði vel.

Liðin gengu þó ekki jöfn til búningsklefa því Dario Benedetto skallaði aukaspyrnu glæsilega í netið rétt fyrir leikhlé.

Leikurinn var jafn allan tímann og verðskulduðu gestirnir að jafna í síðari hálfleik. Carlos Izquierdoz varð þá fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir aukaspyrnu River Plate.

Meira var ekki skorað og jafnteflið sanngjarnt. Úrslitin munu ráðast í síðari leiknum sem verður á heimavelli River.

Liðin eru ekki í toppbaráttu argentínsku deildarinnar eftir fyrstu 11 umferðir tímabilsins. Tvö stig skilja liðin að, Boca er í áttunda sæti og River í ellefta. Það eru 26 lið í argentínsku deildinni og er Racing Club með sjö stiga forystu á toppnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner